Framfylgd‎ > ‎

Svæðisskipulagsnefnd og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes

Efnisyfirlit: 
Svæðisskipulagsnefnd
Svæðisgarðurinn Snæfellsnes
Stjórnunaráætlun svæðisgarðs

Svæðisskipulagsnefnd

Þau sveitarfélög sem aðild eiga að svæðisskipulaginu eru bundin af stefnu þess við gerð aðalskipulags (sbr. 25. gr. skipulagslaga). Svæðisskipulagsnefnd, sem er skipuð að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, sér um framfylgd svæðisskipulagsins og breytingar á því (sbr. 9. gr. skipulagslaga). Skipulagsákvarðanir nefndarinnar, svo sem um samþykkt skipulagstillögu til auglýsingar og endanleg samþykkt svæðisskipulags, eru háðar samþykki allra hlutaðeigandi sveitarstjórna. Gert er ráð fyrir að svæðisskipulagsnefnd muni starfa í nánu samstarfi við stjórn Svæðisgarðsins Snæfellsness, sbr. að neðan.
  

Um svæðisgarð

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes“ var stofnaður þann 4.4.'14 m.a. í þeim tilgangi að vinna að framgangi þessarar svæðisskipulags- og sóknaráætlunar í samvinnu við svæðisskipulagsnefnd. Markmiðið er að efla samfélagið, vinna sameiginlega að því að bæta lífsgæði og lífskjör og auka upplifun og vellíðan íbúa og gesta.

Svæðisgarðurinn mun halda utan um samvinnu fyrirtækja, sveitarfélaga og félagasamtaka á svæðisvísu. Samstarfið mun byggja á sameiginlegri sýn um sérstöðu svæðisins og stefnu um styrkingu þess sem birtist í þessu svæðisskipulagi.  

Erlendar fyrirmyndir sýna að þessi leið til að stilla saman strengi íbúa, fyrirtækja og stjórnvalda á samstæðu svæði er líkleg til að gefa frjóan jarðveg fyrir þá sem vilja nýta sér landkosti og sérstöðu svæðisins á fjölbreytilegan hátt. 

Stjórnunaráætlun svæðisgarðs

Samstarfsaðilar að svæðisgarði samþykktu, þann 4.4.2014, stjórnunaráætlun fyrir svæðisgarðinn. Áætlunin hefur stoð í stofnsamningi aðila og segir til um stjórnfyrirkomulag, hlutverk og helstu verkefni svæðisgarðs, byggð á því sem fram kemur í svæðisskipulagsvinnunni.

Það er m.a. hlutverk svæðisgarðs að fylgjast með því hvernig gengur að framfylgja stefnu Svæðisskipulags Snæfellsness 2014-2026 og samræma starf ólíkra aðila í samstarfi við svæðisskipulagsnefnd. Hlutverk sitt rækir svæðisgarðurinn með því að sinna skilgreindum viðfangsefnum að því marki sem hann hefur fjármuni og umboð til hverju sinni.