Grunnur‎ > ‎

Þekkingarauður

Efnisyfirlit:
Skólar og rannsóknarsetur
Mannauður og verkþekking
Samstarf og félög

Skólar og rannsóknarsetur

Verðmæti

Á Snæfellsnesi eru starfræktir skólar á öllum stigum nema háskólastigi. Leikskólar eru í Lýsuhólsskóla, í Grundarfirði, Stykkishólmi, Ólafsvík, á Hellissandi og í Laugargerði. Grunnskóli Snæfellsfellsbæjar er rekinn á þremur stöðum; í Ólafsvík, á Hellissandi og Lýsuhóli í Staðarsveit. Grunnskólarnir í Grundarfirði og Stykkishólmi þjóna einnig nærliggjandi sveitum en Laugargerðisskóli þjónar börnum í Eyja- og Miklaholtshreppi. Allir grunnskólarnir hafa sett sér markmið eða skólastefnu. Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga, sem er með aðalstöðvar á Hellissandi, þjónustar skólana á svæðinum nema Laugargerðisskóla.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur verið starfræktur í Grundarfirði síðan árið 2004. Hann býður nám á náttúrufræðibraut, félagsfræðibraut og almennri braut. Hann sér nemendum fyrir undirstöðuþekkingu í kjarnagreinum, upplýsingatækni og listgreinum með það að markmiði að auka áhuga nemenda til áframhaldandi náms. Skólinn býður dreifnám fyrir nemendur sem ekki eiga þess kost að sækja skólann daglega.

Átthagafræðslu er gert hátt undir höfði á Snæfellsnesi. Grunnskólinn í Snæfellsbæ hefur þar rutt brautina, ásamt Átthagastofu Snæfellsbæjar, sem leitast við að hafa gott samstarf við leikskóla og grunnskóla í Snæfellsbæ.

Tónlistarskólar eru starfræktir í Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi og Laugargerði. 

Nokkur mikilvæg rannsóknarsetur eru á Snæfellsnesi þar sem einkum eru stundaðar rannsóknir á náttúru Snæfellsness og vistfræði Breiðafjarðar. Í Stykkishólmi er Rannsóknarsetur Háskóla Íslands og Náttúrustofa Vesturlands, í Ólafsvík er Vör Sjávarrannsóknarsetur rekið af einkaaðilum og þar er einnig útibú Hafrannsóknarstofnunar. Vör hefur þjónað Fjölbrautaskóla Snæfellinga og útvegað aðstöðu og kennslu í náttúrufræðum (2013-2014). Matís er þekkingar- og rannsóknarfyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði og líftækni. Matís opnaði starfsstöð í Grundarfirði árið 2012, en starfsemin hefur þó legið niðri síðan 2013. Matís hefur leitað leiða til að hefja á ný starf á svæðinu. 

Símenntunarmiðstöð Vesturlands hefur starfsmann í Ólafsvík og aðstöðu í Átthagastofu, auk þess að hafa fasta aðstöðu fyrir námskeið í Grundarfirði og Stykkishólmi. Miðstöðin hefur verið rekin frá árinu 1999, en að henni standa sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir á Vesturlandi. Markmið Símenntunarmiðstöðvarinnar er að efla og styrkja atvinnulíf og samfélag með því að standa fyrir ýmiskonar námskeiðum og fræðslu, auk náms- og starfsráðgjafar og ráðgjafar og greiningar á fræðsluþörf fyrirtækja á svæðinu.

Tækifæri

Átthagafræðsla í skólum Snæfellsbæjar og átthagakennsla einstakra áfanga í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, eru fyrirmyndir sem nýta má á svæðinu. Auk þess má nýta gögn sem aðgengileg eru í VERKFÆRAKISTU Snæfellinga, og styrkja þannig kennslu um auðlindir og sérkenni Snæfellsness á öllum skólastigum og auka áhuga ungs fólks á tækifærum sem svæðið býður upp á. 

Auka mætti samvinnu rannsóknarsetra innan svæðisins og samvinnu þeirra við atvinnulífið í þeim tilgangi að styðja við þróun og nýsköpun í þeim greinum sem vaxtarmöguleikar eru í á Snæfellsnesi. Mörg þeirra hafa það einmitt að markmiði. Rannsóknarsetrin eru mikilvæg leið til að fá ungt fólk með sérfræðimenntun til að flytja heim aftur, en líka til að örva ungt fólk til að sækja sér menntun. Miðla mætti niðurstöðum rannsókna frekar og auka samvinnu t.d. við Símenntunarmiðstöð Vesturlands í þeim tilgangi að auka almenna þekkingu á svæðinu og möguleikum þess.

Mannauður og verkþekking

Verðmæti

Á Snæfellsnesi er að finna fólk með mikla þekkingu í grunnatvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði. Þekking á útgerð, veiðum, fiskvinnslu, netagerð og markaðsmálum byggir á langri sögu. Sama má segja um þekkingu í landbúnaði, bæði sauðfjárrækt og kúabúskap. 

Þekking íbúa á heimahögum sínum, sögu þeirra og náttúru, er líka mikilvæg auðlind. Nýta þarf þekkingu sem e.t.v. er á undanhaldi; verkþekkingu fólks og þekkingu á gömlu handverki, hjá þeim sem geta kennt áhugasömum. 

Á Sjúkrahúsinu í Stykkishólmi er verðmæt sérfræðiþekking sem mikilsvert er að halda í svo og hjá rannsóknarsetrum svæðisins.

Ekki má gleyma, að 13% íbúanna á Snæfellsnesi eru erlendir ríkisborgarar. Í þeim býr líka mikil þekking, sem bæði snertir bakgrunn fólks og menntun, en einnig þekkingu þess - sem aðkomufólks - og reynslu, af samfélögunum á Snæfellsnesi. 

Tækifæri

Byggja þarf áfram ofan á þá miklu reynslu og þekkingu í sjávarútvegi og nýtingu sjávarauðlinda sem fyrir hendi er á svæðinu. Aukin samvinna á milli sveitarfélaga, atvinnulífsins og rannsóknarsetra getur hjálpað þar til. 

Standa mætti fyrir námskeiðum, t.d. í gegnum Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Átthagastofu Snæfellsbæjar, Byggðasafnið eða sambærilega aðila, um gamla verkþekkingu, gamalt handverk og sögur af svæðinu til að skila þekkingu áfram frá einni kynslóð til annarrar.

Samstarf og félög

Verðmæti

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa nú þegar með sér margskonar samstarf, einnig við önnur sveitarfélög á Vesturlandi, auk samstarfs við atvinnulífið. Snæfellingar búa að reynslu af þessu samstarfi og geta nýtt sér hana við frekari mótun samstarfs um svæðisgarð.

Samstarf sveitarfélaga á Snæfellsnesi fer m.a. fram í gegnum Héraðsnefnd Snæfellinga, Framkvæmdaráð Snæfellsness, umhverfisvottun sveitarfélaganna, Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla, Jeratún ehf. og Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga og fleira mætti nefna. 

Samstarf sveitarfélaga á Vesturlandi fer m.a. fram í gegnum Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, SSV-Þróun og ráðgjöf, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Menningarráð Vesturlands, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, Sorpurðun Vesturlands hf. og fleira mætti nefna. Sveitarfélögin við Breiðafjörð hafa haft með sér samstarf á grunni laga um vernd Breiðafjarðar. 

Fjölmörg félög og samtök eru starfandi á Snæfellsnesi. Sum þeirra hafa samstarf, milli byggðarlaga og yfir svæðið. Nefna má Héraðssamband Snæfellsnes- og Hnappadalssýsu (HSH) og samstarf íþróttafélaga eða -deilda á svæðinu. 

Einstakar atvinnugreinar og -hópar hafa samstarf á svæðisvísu. Ferðamálasamtök Snæfellsness eru dæmi um það. Einnig Snæfell, félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Útvegsmannafélag Snæfellsness, Félag stjórnenda við Breiðafjörð (áður Verkstjórafélag á svæðinu, stéttarfélag), Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu, og fleira mætti nefna. 

Þróunarfélag Snæfellsness hefur starfað síðan 2011, en til þess var stofnað af fyrirtækjum og einstaklingum á Snæfellsnesi. Það starfar "á breiðum grunni að framþróun og eflingu atvinnulífs og samkeppnishæfni byggðarlaga á Snæfellsnesi".

Vinir Snæfellsjökuls eru nýleg hollvinasamtök þjóðgarðsins og vilja þau beita áhrifum sínum til að efla samkennd um mikilvægi Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls fyrir nærliggjandi byggðir og alla landsmenn. Auk þess vilja þau efla skilning umheimsins á mikilvægi Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og einstakri náttúru hans á heimsvísu, eins og segir í yfirlýsingu samtakanna.  

Tækifæri

Fjölmörg tækifæri felast í auknu samstarfi á svæðinu, einkum milli ólíkra atvinnugreina og milli sveitarfélaga og atvinnulífs. Svæðisgarður er m.a. stofnaður til að vera vettvangur þessara aðila, um samstarf til langs tíma og á grunni sameiginlega markaðrar framtíðarsýnar. Það gerir samstarfið markvisst og viðráðanlegt, til lengri tíma litið. 

Fulltrúar í vinnhópum bentu á að meiri samvinna milli norðanverðs og sunnanverðs Snæfellsness á ýmsum sviðum gæti skilað betri árangri.