Grunnur‎ > ‎

Staðarandi Snæfellsness

Efnisyfirlit:
Um staðaranda
Staðarandi Snæfellsness
Snæfellsjökull 
Andstæður og fjölbreytileiki
Sambúð við sjóinn

Um staðaranda

Til þess að lýsa upplifun sinni af tilteknum stað talar fólk gjarnan um að andinn hafi verið þess eða hinn. Andinn vísar þá til þeirra tilfinninga sem fólk upplifði eða áhrifa sem það varð fyrir á staðnum. Þau áhrif geta stafað frá umhverfinu jafnt sem mannfólkinu. Þau verða til jafnt út frá hljóði, lykt og bragði sem sýn, snertingu og samskiptum. Þannig upplifum við staði í gegnum öll skynfæri okkar. Því sterkari sem upplifunin er, því skýrari verður mynd staðarins í huga okkar og þar með ímynd hans. Því jákvæðari sem upplifunin er því líklegra er að við viljum heimsækja staðinn aftur. 

En staðarandi er ekki einungis til í hugum gesta, hann er ekki síður lýsing á þeim tengslum sem heimamenn hafa við átthaga sína. Því sterkari tengsl, þeim mun skýrari sjálfsmynd íbúa og samfélagsins. Það eru þessi tengsl sem gestir vilja gjarnan kynnast og fá að upplifa. Ferðalangar leita eftir því sem er „ekta" og sérkennandi fyrir viðkomandi stað.

Í staðarandanum felast því verðmæti og til að nýta þau er mikilvægt að geta lýst honum og miðlað með fjölbreyttum, en - að einhverju leyti - samræmdum hætti.  

Tækfærin sem liggja í staðaranda svæða eru yfirleitt ekki bara á sviði ferðaþjónustu heldur má einnig nýta verðmætin í staðarandanum á öðrum sviðum, eins og í vöruþróun og markaðssetningu á handverki eða matvælum. Sterkur staðarandi getur líka laðað að nýja íbúa.

Staðarandi Snæfellsness

Staðarandi Snæfellsness mótast einkum af Snæfellsjökliandstæðum og fjölbreytileika í umhverfinu og sterkum tengslum við sjóinn.

Snæfellsjökull

Snæfellsjökull er 1446 m hár og er oft kallaður konungur íslenskra fjalla. Hann var lengi talinn hæsta fjall landsins því hann gnæfir yfir byggðunum í kring og sést víða að frá landi og sjó, þar sem hann trónir við enda fjallgarðsins sem klífur Snæfellsnes í suður og norður svæði.

Snæfellsjökull er blanda af eldi og ís, hörku og dulúð. Hann er virk eldkeila sem hefur hlaðist upp í mörgum hraun- og sprengigosum. Toppgígurinn er um 200 metra djúpur, fullur af ís og girtur íshömrum. Hæstu hlutar hans eru þrjár þúfur á barmi gígskálarinnar, kallaðar Jökulþúfur og er Miðþúfan þeirra hæst. Jökullinn hefur minnkað á undanförnum árum. Hlíðar jökulsins eru einkar fallegar og víða fléttast hraunið í reipum niður hlíðarnar. Síðast gaus í jöklinum fyrir um 1800 árum og var það stórgos. 

Sagt er frá því í Bárðar sögu Snæfellsáss að Bárður, fyrsti landnámsmaðurinn á Snæfellsnesi, hafi gefist upp á samneyti við fólk og að lokum gengið í Jökulinn. Upp frá því gerðist hann verndari svæðisins. Jökullinn hefur verið skáldum, rithöfundum og öðrum listamönnum yrkisefni í gegnum tíðina og sem dæmi má nefna söguna um leiðina að miðju jarðar í bókinni Leyndardómar Snæfellsjökuls (1864) eftir Jules Verne. Sumir finna sterk áhrif frá Jöklinum og telja að hann sé ein af stærstu orkustöðvum jarðar. Margir heimamenn byrja og enda daginn á að horfa til Jökulsins. Hvers vegna? Kannski vegna þess sem Halldór Kiljan Laxness lýsti svo í Kristnihaldi undir Jökli: „Jökullinn forklárast á vissum tíma dags í sérstakri birtu og stendur í gullbjarma með stóru geislamagni og allt verður auðvirðilegt nema hann.“

Andstæður og fjölbreytileiki

Fjölbreytileikinn og andstæður í umhverfinu birtast t.d. í:
 • Hæðarlegu:  Hálendi og láglendi; fjöllum og strönd.
 • Byggðarmynstri:  Byggð og óbyggð; sveitum, sjávarþorpum og óbyggðu fjalllendi.
 • Rýmum:  Víðáttu og þrengslum; sjávarfleti, fjörðum, dölum og opnum sveitum.
 • Yfirborðsefnum:  Söndum, hrauni, grjóti og gróðri.
 • Mynstri:  Hrikaleika, mýkt, hrjúfri áferð og sléttri.
 • Litum:  Dökkum litum og ljósum; birtu, og myrkri, svörtu hrauni og hvítum söndum; rauðum leir og gulum mosa. 
 • Veðurfari:  Sterkum veðrabrigðum; hvassviðri og logni; sjólagi, sjávarstöðu og skýjafari.
 • Vatnafari:  Þurrlendi, votlendi; strandsjó, fjallalækjum og ölkelduvatni.
 • Jarðfræði:  Jökli, eldstöðvum, fjöllum, björgum, hellum, hrauni og grjóti.
 • Fuglalífi:  Mófuglum, ránfuglum, votlendisfuglum og sjófuglum.


Sambúð við sjóinn

Sterk tengsl við sjóinn í nútíð og fortíð birtast t.d. í:
 • Lifandi strandmenningu í sjávarþorpum, útvegsbæjum og sveitum við strönd.
 • Fjölda minja og staða sem tengjast útræði og nýtingu sjávarauðlinda, s.s. verbúðum.
 • Minjum og stöðum tengdum merkri verslunarsögu
 • Gömlum leiðum tengdum atvinnusögunni, s.s. vermannaleiðum, skreiðarleiðum, póstleiðum, kirkjuleiðum, Norðlingaleið.
 • Minjum, stöðum og leiðum tengdum sögum um búsetu við sjóinn og í nálægð við kraftmikla náttúru; Íslendingasögum, þjóðsögum, sögum af álfum og huldufólki eða einstökum sögupersónum, skáldum eða öðrum listamönnum.