Grunnur‎ > ‎

Menningarauður

Efnisyfirlit:
Söguþræðir 
Menningarlíf

Söguþræðir Snæfellsness

Verðmæti

Byggð á Snæfellsnesi á sér sögu allt aftur til landnáms
 en samkvæmt Landnámu nam Björn Austræni Bjarnarhöfn, Þórólfur Mostraskegg Helgafell og Sel-Þórir Ytri-Rauðamel. Þeir þóttu göfugastir landnámsmanna á Snæfellsnesi en landnámsbæir dreifðust um allt svæðið. Auk þess er talið að Ari fróði hafi ritað Íslendingabók á Staðastað og að hann hafi átt stóran þátt í smíðum Landnámu.

Margir staðir á Snæfellsnesi tengjast Íslendingasögum og er helst að nefna sögustaði Eyrbyggju á norðanverðu nesinu og Bárðar Snæfellsáss vestan Fróðárheiðar. Aðrar Íslendingasögur sem teygja anga sína til Snæfellsness eru t.d. Gísla saga Súrssonar, Heiðarvígasaga, Víglundarsaga og Laxdæla. Þá er merk kona úr Íslandssögunni, Guðríður Þorbjarnardóttir, fædd að Laugarbrekku á Hellnum um 980, en hún var merkur landkönnuður og talin ein víðförlasta kona heims á hennar tíma.

Enn fleiri staðir
 tengjast þjóðsögum og ýmiskonar sögnum. Slíkar sögur eru gjarnan tengdar ferðaleiðum og landslagsformum. Til dæmis eru margar sögur tengdar leiðinni yfir Fróðárheiði, yfir Vatnaheiði og eftir strönd útnessins. Þetta „ósýnilega landslag“ getur gert ferðir um Snæfellsnes enn áhrifaríkari en ella, ef upplýsingum um það er komið á framfæri, ýmist með góðri leiðsögn eða aðgengilegu rit-, hljóð- eða myndefni.
Útgerðarsaga Snæfellinga þræðir alla strandlínu Snæfellsness, enda er alls staðar stutt á fiskimið eða landmið eins og miðin næst landi kölluðust. Fyrr á öldum var útræði, verstöðvar og verslunarhafnir víða og þekktar eru gamlar verbúðar-, skreiðar- og verslunarleiðir. Blómatíma útræðis og verbúða lauk með tilkomu vélbátanna sem kröfðust annars konar lendingar. Útgerð og verslun þjappaðist saman og þéttbýli myndaðist, þar sem sjávarútvegur er enn í dag kjölfesta atvinnulífsins. Þekking Snæfellinga á auðlindum sjávar, veiðum og fiskvinnslu er því mikil, eins og fjallað er um í kafla um þekkingarauðÍ langri búnaðarsögu á Snæfellsnesi býr einnig þekking á auðlindum landsins, nýtingu þeirra og gömlum og nýjum starfsháttum. Landbúnaður er ennþá
 
aðalatvinnugreinin á sunnanverðu Snæfellsnesi en á því norðanverðu er hann fyrst og fremst stundaður í Eyrarsveit og Helgafellssveit. 

Þekking, reynsla og hefðir tengdar nýtingu hráefna úr sjó og af landi til matar, eru því verðmæti sem svæðið og íbúar þess búa yfir. Sama gildir um gamlar og nýjar sögur af sjómönnum og bændum.Snæfellsnes hefur einmitt alið marga merkismenn og -konur og verið innblástur listamanna í myndlist, ljóðlist og ritlist. Nefna má Halldór Laxness, Jules Verne, Jónas Hallgrímsson, Sigurð Breiðfjörð, Steingrím Thorsteinsson, Margréti Jónsdóttur, Stapakrypplinginn og Þórð frá Dagverðará.  

Erlend áhrif á Snæfellsnesi eru margvísleg og saga útlendinga nær allt fram á okkar daga.  Á tímum einokunarinnar voru löggiltir verslunarstaðir að Búðum, Stapa, Rifi, Grundarfirði og Kumbaravogi og í Stykkishólmi.  Þar versluðu aðallega Danir, en líka Svíar, sem og Íslendingar. Englendingar versluðu í Rifi, eins og víðar á Íslandi, í óþökk Dana. Björn ríki Þorleifsson, hirðstjóri, barðist gegn ólöglegri verslun Englendinga og var felldur þegar sló í bardaga við Englendingana, sem frægt er, þar sem nú er kallað Englendingavík í Rifi. Þar er einnig Björnssteinn.Elstu heimildir um verslun í Stykkishólmi greina frá þýskum kaupmanni, Carstein Bache, sem þar fékk leyfi til verslunar. Annars eru dönsk áhrif mjög sýnileg í Stykkishólmi. Þau má einkum rekja til þess að á 18. og 19. öld og framanverðri 20. öld, höfðu þar aðsetur bæði kaupmenn og embættismenn, t.d. sýslumenn og læknar, sem flestir voru danskir eða danskmenntaðir. Árni Thorlacius kaupmaður lét reisa „Norska húsið” sem íverustað fjölskyldu sinnar. Nafngiftin stafar af því að viður hússins var fluttur inn, tilhöggvinn, frá Noregi. Húsið hefur verið endurbyggt í upprunarlegri mynd og þar er nú Byggðasafn Snæfellinga.  St. Fransiskussystur settust að í Stykkishólmi, héldu þar klaustur og byggðu sjúkrahús og barnaheimili, sem þær ráku um áratuga skeið.  Á 19. öldinni stunduðu Frakkar fiskveiðar og gerðu út frá Grundarfirði og mynduðu litla byggð á Grundarkampi. Hennar sér þó lítil merki í dag. Margir Færeyingar komu hingað til lands á árunum milli 1950 og 1960. Þeir stunduðu hér sjóinn og gegndu störfum í fiskvinnslu. Margir þeirra settu sig niður í Ólafsvík og þegar flest var þar, voru þeir um 120. 

Ríkri sögu Snæfellsness tengjast fjölmargar fornleifar en talsvert 
vantar upp á heildstætt yfirlit yfir fornminjar á svæðinu. Fornleifar hafa verið skráðar á einstökum svæðum eða í tengslum við tilteknar framkvæmdir eins og vegagerð. Þannig liggja fyrir skrár t.d. fyrir land Grundarfjarðarbæjar, Innri Kóngsbakka í Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ, fyrir Fagurey á Breiðafirði, Stakkhamra og Borgarholt í Eyja- og Miklaholtshreppi, Arnarstapa, Hellna og Ólafsvík í Snæfellsbæ og vegna Útnesvegar og Mávahlíðarrifs. Mikilvægt er að ljúka við fornleifaskráningu á öllu svæðinu.

Ítarlegri umfjöllun um búsetu, samfélag og menningu á Snæfellsnesi er að finna í umhverfisskýrslu.

Tækifæri
Innan þess söguefnis sem tilgreint er að ofan, þ.e. sögu landnáms á Snæfellsnesi, Íslendingasagna, þjóðsagna, útgerðarsögu, búnaðarsögu og sögu útlendinga, merkismanna og listafólks, má finna marga þræði sem hægt er að nýta, t.d. við að þróa viðburði og söguferðir eða þemaferðir um svæðið; til að skapa einstökum svæðum ákveðna sérstöðu; eða til að nota sem innblástur fyrir þróun nýrrar matvöru, handverks eða annarrar framleiðslu. Sagan er líka efniviður í sterka ímynd Snæfellsness.  


Menningarlíf

Verðmæti
Íþrótta- og menningarstarfsemi er í miklum blóma á Snæfellsnesi. Tónlistarskólar og bókasöfn eru starfrækt á helstu þéttbýlisstöðunum og Stórsveit Snæfellsness, lúðrasveit ungs fólks, hefur starfað frá haustinu 2012.
Í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi eru starfandi leikfélög og á Rifi var nýlega stofnað atvinnuleikhús, kennt við Frystiklefann. Aðstaða til íþróttaiðkunar er góð og mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár. Íþróttahús, sundlaugar og íþróttavelli má finna í öllum stærstu þéttbýliskjörnunum og á nokkrum stöðum í dreifbýlinu.

Áður tíðkaðist að hver hreppur hefði sitt samkomuhús og eru mörg þeirra enn í notkun sem félagsheimili íbúanna eða að þau eru nýtt fyrir einkasamkvæmi. Þau geyma sögu og minningar og gefa möguleika á ýmiskonar menningarstarfsemi. Kirkjur hafa einnig gegnt mikilvægu hlutverki sem samkomustaðir fólks í gegnum tíðina. Samkomustaðir voru þó ekki bundnir við byggingar og eru fjölmörg dæmi um áningarstaði þar sem fólk kom saman. Einn þeirra er Hraunflöt við Selvallavatn þar sem haldin voru héraðsmót í íþróttum í kringum 1940. 

Helstu söfnin á Snæfellsnesi eru Sjóminjasafnið á Hellissandi, Pakkhúsið og  Sjávarsafnið í Ólafsvík, Hákarlasafn í Bjarnarhöfn og Norska húsið sem hýsir Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla. Einnig má nefna Eldfjallasafnið og Vatnasafnið í Stykkishólmi. Á svæðinu eru einnig nokkur gallerí og handverksmarkaðirAðrar menningarstofnanir eða -setur eru t.d. Átthagastofa Snæfellsbæjar og Sögumiðstöðin í Grundarfirði. Átthagastofan hefur það hlutverk að efla samkennd í samfélaginu, gera íbúa meðvitaða og upplýsta um ágæti svæðisins og þau tækifæri sem í því felast. Í þeim tilgangi hefur verð unnið að ýmsum uppbyggjandi samfélagsverkefnum, þ.m.t. námskeið, fyrirlestrar, ráðstefnur, fundir og sýningar sem varða samfélagið og eflingu þess. Hlutverk Sögumiðstöðvar í Grundarfirði breyttist á árinu 2013, en felst í að vera menningar- og samfélagsmiðstöð, þar sem áhersla er lögð á sögulegan fróðleik og minjar um það hvernig þorp varð til.  

Ýmsir árlegir viðburðir eru haldnir á Snæfellsnesi, t.d. kvikmyndahátíðin Northern Wave sem orðin er árviss viðburður í Grundarfirði, raftónlistarhátíð á Hellissandi, sögu -og bókahátíðin Júlíana í Stykkishólmi, auk bæjarhátíða. 

Fjölbreytt flóra áhugamannafélaga starfar á Snæfellsnesi, sem of langt mál væri að telja upp. Menningarstarf birtist í ýmsum myndum. Í Staðarsveit hafa Sögufylgjur hist reglulega (veturinn 2013-2014) en hlutverk þeirra er að safna sögum af svæðinu og halda til haga, í því skyni að nýta í leiðsögn fyrir gesti um svæðið. Bókaklúbbar og leshringir starfa á svæðinu og í Grundarfirði er í boði þorpsrölt (Village Walk) fyrir gesti. 

Tækifæri

Þegar fólk velur sér stað til búsetu horfir það ekki eingöngu til atvinnutækifæra heldur einnig til menningarlífs, þ.m.t. skóla, aðstöðu til íþróttaiðkunar og þátttöku í félagsstarfi. Það er því mikilvægt að stuðla að blómstrandi menningarlífi og Snæfellsnes hefur þar góðan grunn að byggja á. Til að efla menningarlíf enn frekar væri hægt að auka samstarf menningarstofnana og félaga á sviði menningarmála og kynna vel hvað Snæfellsnesið hefur upp á að bjóða í þessu tilliti. Hluti af slíku yfirliti gæti verið listi yfir húsnæði sem nýta mætti til ýmiskonar sköpunar, einskonar menningarhús eða menningarmiðstöðvar, sbr. t.d. gömlu samkomuhúsin eða önnur hús sem eru lítið eða ekki nýtt. Fyrir menningarlífið skiptir aðgengi að listnámi líka máli og þar getur Fjölbrautaskóli Snæfellinga haft hlutverki að gegna. 

Markviss uppbygging menningartengdrar ferðaþjónustu, þar sem sagnaarfur og lifandi strandmenning er kjölfesta, getur skilað meiri tekjum inn á svæðið um leið og það styrkir menningarlíf íbúa. Halda ætti áfram með þau verkefni sem þegar er unnið að, s.s. Sveitaveginn og Sögufylgjur, en söfn, ferðaþjónustuaðilar og aðrir áhugasamir gætu líka sameinast um verkefni sem tengja saman sýningu og ferðaleið. Efla mætti núverandi menningarhátíðir og þróa nýjar sem draga fram sögu og sérkenni svæðisins.

Skráning á fornleifum og rannsóknir á þeim eru mikilvægar til að auka þekkingu á menningarminjum svæðisins og möguleikunum sem í þeim búa.