Grunnur‎ > ‎

Náttúruauður

Efnisyfirlit:                                                                                               ATH! Smellið á myndir til að sjá þær í stærri útgáfu!

Haf og strönd  
Lífríki og vatnafar
Jarðfræði
Himinn og veður 

Haf og strönd 

Verðmæti


Snæfellsnes er umlukið hafi á þrjá vegu og sjórinn er því alls staðar nálægur með sínu síbreytilega hljómfalli; gjálfri öldunnar í flæðarmálinu og gný haföldunnar úti fyrir. Margbreytileg strandlínan; firðir, vogar, víkur, björg, fjörur, eyjar og sker, bjóða upp á mismunandi tengsl við sjóinn. Upplifunin getur því verið ný á hverjum degi.


Í sjónum eru mikilvægar auðlindir (sbr. umfjöllun um lífríki hér fyrir neðan) og hagsæld byggðanna á Snæfellsnesi hefur að miklu leyti byggst á auðlindum sjávarins. Undan ströndinni eru fengsæl fiskimið sem sjófarendur hafa miðað út eftir landmiðum og gefið nöfn, þó staðarákvarðanir í dag séu oftar en ekki langar runur af tölustöfum. Fiskimiðin skammt undan landi eru mikilvæg verðmæti, t.d. miðin í Kolluál og í Faxaflóa út frá Arnarstapa. Sjávaraflinn er fjölbreyttur og sífellt fleiri tegundir og stærri hluti sjávarfangsins er nýttur. Hlunnindi eyjanna á Breiðafirði hafa löngum skipt íbúa þar miklu, s.s. æðarvarp, þangfjörur, vorkópar, eggjataka og fuglaveiði, sbr. matarkistuna Breiðafjörð. Sjórinn býr einnig yfir orku, en sjávarorka er af mörgum talin ein stærsta ónýtta orkulind Íslands. Á hafsbotninum er margbreytilegt landslag sem býður upp á áhrifaríkar neðansjávarferðir og við náttúruskoðun af sjó má komast í nánd við fjölbreytt fuglalíf í margbreytilegu umhverfi.


Tækifæri


Auðlindir sjávarins eru verðmætar og þær fela í sér margvísleg tækifæri, bein og afleidd. Þær má nýta frekar til ýmiskonar matvælaframleiðslu, í iðnað og handverk, auk þess sem þær eru uppspretta margvíslegra hugverka. Sjávarföll eru ónýtt auðlind á á Íslandi og er Snæfellsnes eitt þeirra svæða sem nefnt hefur verið í sambandi við mögulega nýtingu sjávarorku til rafmagnsframleiðslu. Þá orku mætti til dæmis nota við verkun fiskafurða. Tækifæri eru í ferðaþjónustu þar sem boðið er upp á að gestir taki þátt að hluta eða í öllu ferlinu frá því að sjóferð er undirbúin þangað til vara er fullunnin fyrir markað. Mikil tækifæri eru til náttúruskoðunar, bæði ofan- og neðansjávar.


Lífríki og vatnafar

Verðmæti

Fjölskrúðugt lífríki Snæfellsness tengist fjölbreytni í jarðfræði svæðisins. Samspil berggrunns, jarðvegs og vatnafars skapar mismunandi aðstæður fyrir fugla og plöntur. Fuglalíf er sérstaklega auðugt, t.d. í fjörum og björgum um allt svæðið, í fjörðum að norðanverðu og við vötn, tjarnir og í mýrlendi að sunnarverðu. Lífríki Breiðafjarðar er einnig einstaklega fjölbreytt og Breiðafjörðurinn var hér áður nefndur matarkista vegna þess hve gjöfull hann er á fisk, skeldýr, æðarfugl og svartfugl o.fl., sbr. umfjöllun um haf og strönd að ofan. Sjávargróður er mikill og þar finnast allar fisktegundir sem veiðast við Ísland. Við Snæfellsnes svamla jafnframt hvalir og selir.  

Sem dæmi um annað dýralíf á Snæfellsnesi má t.d. nefna ref og mink. S
temma þarf stigu við þeim síðarnefnda, sökum þess hve ágengur hann er á aðrar tegundir, einkum fugla. Tvær stórar laxveiðiár eru á Snæfellsnesi; Haffjarðará og Straumfjarðará, auk annarra minni. Einnig eru mikil silungssvæði á sunnanverðu Snæfellsnesi og má telja þau vannýtta auðlind

Um 70% íslensku flórunnar finnast á Snæfellsnesi, þar á meðal fjölmargar burknategundir, einstök mosategund (bjargstrý) og merkilegur vatnagróður. Þykkur mosi þekur hraun og blómjurtir vaxa í bollum og gjótum. Strandgróður er fjölskrúðugur víða og í tærum tjörnum má finna litskrúðuga þörunga. Lyngmóar eru útbreiddir og víða góð berjalönd.

Grunnvatn er verðmæt auðlind, en það er að finna í mismiklum mæli eftir svæðum á Snæfellsnesi, þar sem fjölbreyttur berggrunnur skilar sér í nokkuð mismunandi vatnafari. Þó er gnægð af ferskvatni að finna á mestöllu svæðinu og neysluvatn almennt talið gott. 

Jarðhiti er ekki algengur á Snæfellsnesi en hefur þó fundist á nokkrum stöðum. Í Helgafellssveit hafa 
fundist a.m.k. fjögur jarðhitakerfi og síðan árið
2000 hefur heita vatnið þar verið nýtt til hitaveitu í Stykkishólmi og hluta Helgafellssveitar. Vatn úr borholu við Hofsstaði hefur einstaka efnasamsetningu sem hefur hlotið vottun af Institut Fresenius í Þýskalandi. Vatnið þykir sérstaklega gott, einna helst við stoðkerfasjúkdómum, á psoriasis og exem. Vatnsins má njóta í heitu pottunum við sundlaug Stykkishólms.

Við Laugasker í Kolgrafafirði hafa tilraunaboranir leitt í ljós 80°C heitt vatn. Heitar laugar eru við Ytri Rauðamel og Kolviðarnes (Laugargerði) og volgrur eru í Kerlingarskarði. Í Eyja- og Miklaholtshreppi hefur víða verið borað eftir heitu vatni og hefur það m.a. fundist í landi Kolviðarness og Eiðhúsa. Á Lýsuhóli í Staðarsveit hefur hiti vatns mælst 57 gráður en kolsýrublandað vatn rennur úr einni holunni. 

Snæfellsnes er vel þekkt fyrir ölkelduvatn sem þar er að finna. Vitað er um ölkeldur á a.m.k. 20 stöðum og þekktastar eru Rauðamelsölkelda, Ölkelda í Staðarsveit, heit ölkelda á Lýsuhóli og á Ölkeldubotnum í Fróðárdal. Heitt ölkelduvatn beint úr jörðu er í Lýsuhólslaug en það er mjög steinefnaríkt og talið afar hollt og græðandi. 

Ítarlegri umfjöllun um lífríki og vatnafar Snæfellsness er að finna í umhverfisskýrslu.

Tækifæri

Fulltrúar í vinnuhópum bentu á þrjú möguleg svið til verðmætasköpunar tengdri lífríki og vatnafari Snæfellsness: matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og rannsóknir.

Fjölbreytt hráefni svæðisins, hvort heldur er úr sjó, ferskvatni eða af landi, býður upp á þróun nýrra matvara, frekari vinnslu og eflingu þeirrar matvælavinnslu sem fyrir er. Ýmiskonar fisktegundir og annað sjávarfang, s.s. þara og söl, mætti nýta frekar, svo og fisk úr ám og vötnum. „Heilbrigði“ sjávarins við Snæfellsnes byggir á góðri umgengni við auðlindir og samfélögin hafa þegar sýnt frumkvæði og ábyrgð, sbr. vernd Breiðafjarðar og umhverfisvottun Snæfellsness, og vilja til að halda áfram á þeirri braut.

Skoða mætti möguleika þess að nýta vatnsauðlindir svæðisins til fiskeldis. Þá mætti mögulega þróa nýjar vörur úr jurtum af svæðinu. Slík nýting þyrfti öll að gerast með sjálfbærum hætti. Möguleikar til markaðssetningar á matvælum af svæðinu eru góðir m.t.t. gæða hráefnis, umhverfis og hreinleikaímyndar svæðisins. Færa má fyrir því rök, að þetta til samans, geti verið með mestu tækifærum svæðisins - og að þróa mætti vörumerki og sýnilegan „bakgrunn", sem byggði á fjölbreytileika og hreinleika í náttúru og umhverfi. 

Miklir möguleikar liggja í þróun frekari ferðaþjónustu tengdri lífríki og vatnafari svæðisins. Hægt er að bjóða upp á fuglaskoðunarferðir, gróðurskoðunarferðir, hvalaskoðunarferðir og selaskoðunarferðir og almennar náttúruskoðunarferðir - hvort heldur sem er gangandi, hjólandi, akandi eða siglandi - undir leiðsögn heimamanna eða annarra.

Snæfellsnes er kjörinn vettvangur fyrir margs konar náttúrufarsrannsóknir og mikilvægt er að afla frekari þekkingar á lífríki svæðisins, m.t.t. verndargildis, umgengni við náttúruna og skynsamlegrar og ábyrgrar nýtingar auðlinda.


Jarðfræði

Verðmæti

Jarðfræði Snæfellsness spannar nær alla jarðsögu Íslands og er því óvenju fjölbreytt á ekki stærra svæði. Þar hafa eldvirkni og roföfl mótað áhrifaríkt og einstakt landslag. Jarðlög sem ýmist mynduðust á hlýskeiði eða jökulskeiði hafa rofist af vindum, vötnum og jöklum og eftir sitja fjölbreytt landslagsform og stórkostlegar jarðmyndanir: formfögur fjöll og hrikalegur fjallgarður; úfin og slétt hraun; eldgígar, eldrásir, eldvörp, gjóskugígar, gjallgígar og gígtappar; fagurmyndað stuðlaberg og merkileg setlög; margir hellar og sérstæðar kúlumyndanir; ljósir sandar og svartar malarstendur; ölduhryggur, sjávarkambur, björg og klettar. kli klædd eldkeilan Snæfellskjökull er síðan samnefnari svæðisins.

Ítarlegri umfjöllun um jarðfræði Snæfellsness er að finna í umhverfisskýrslu.

Tækifæri

Þessi ótrúlega fjölbreytni landslagsins skapar ævintýralega umgjörð um daglegt líf íbúa sem þeir kunna vel að meta eins og kom fram á fundum með ungu fólki og vinnuhópum.
Unga fólkið lýsti t.d. nálægð við sjóinn og fjöllin og tilfinningu fyrir orku og frelsi sem einum af meginkostunum við að búa á Snæfellsnesi. 
Sami tónn hljómaði hjá fulltrúum í vinnuhópum þegar rætt var um möguleg einkunnarorð Snæfellsness og verðmæti og tækifæri svæðisins. Tækifæri tengd jarðfræði voru meðal annars talin liggja á sviði ferðaþjónustu og fræðimennsku, ekki síst í tengslum við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem nær yfir landslagsheildina umhverfis Jökulinn.

Sérstæð jarðfræði Snæfellsness er fóður í sterka ímynd svæðisins, sem nýst getur á margvíslegan hátt, fyrir fyrirtæki og samfélagið í heild. Tækifæri til verðmætasköpunar á þessum grunni gætu t.d. legið í viðurkenningu á svæðinu, að hluta til eða í heild, sem geopark hjá neti evrópskra jarðvanga (European Geoparks Network). Þá er Eldfjallasafnið í Stykkishólmi vísir sem byggja má á til að laða að vísindamenn og þróa jarðferðamennsku (geo-tourism) þar sem áhersla er á að læra um jarðfræði og landmótunarferli og að geta lesið jarðsöguna úr landslaginu. Jarðfræði og landslag svæðisins er líka kjörinn vettvangur fyrir annarskonar áhugasvið eins og fjallgöngur og klettaklifur, auk þess að skapa töfrandi umgjörð um hverskonar útivist og ferðalög. Fjölbreytt jarðfræði Snæfellsness gefur einnig ýmiskonar jarðefni sem þarf að ganga vel um og nýta af varkárni þannig að merkilegar jarðminjar skaðist ekki. 


Himinn og veður

Verðmæti

Líkt og hafið sem umlykur Snæfellsnes, býður himinninn upp á margvíslega umgjörð eftir veðri og árstímum, en veðrabrigði á Snæfellsnesi geta einnig verið mikil frá einum degi til annars og einum stað til annars. Rokið á Snæfellsnesi en frægt, en það minnir á krafta náttúrunnar og getur falið í sér magnþrungna upplifun. Að sama skapi eru litir hafsins breytilegir eftir veðri og vindum en þeir gefa landinu jafnan bláa umgjörð, sem margir telja einkennandi fyrir Snæfellsnes.

Tækifæri

Líkt og norðurljós, geta veðrabrigði og marbreytilegt skýjafar haft aðdráttarafl fyrir ferðamenn og þá sem eru öðru vanir. Þar sem Snæfellsnes er opið á haf út eru víða góðar aðstæður til að að njóta sólarupprásar og sólarlags að sumri og stjörnuhimins og norðurljósa að vetri. Nálægð við höfuðborgarsvæðið, þar sem meiri hluti landsmanna býr og þangað sem flestir erlendir ferðamenn koma, gefur möguleika á að markaðssetja Snæfellsnes enn frekar fyrir stuttar sumar- og vetrarferðir. 
Einnig gætu legið tækifæri í að beisla vindorkuna, til raforkuframleiðslu.