Samhengi

Efnisyfirlit:
Landfræðilegt samhengi
Samhengi við búsetuþróun liðinna ára
Samhengi við ýmis stefnuskjöl og verkefni
Samhengi við aðalskipulag

Landfræðilegt samhengi

Vesturlandi má skipta upp í nokkur undirsvæði sem afmarkast af landslagsþáttum. Snæfellsnes er eitt þessara svæða og sveitarfélögin fimm á svæðinu hafa með sér margvíslega samvinnu. Jafnframt taka þau þátt í samstarfi sem nær yfir Vesturland allt, t.d. á vettvangi SSV, Sorpurðunar Vesturlands ofl. Samstarf Snæfellinga - sveitarfélaga og annarra aðila - nær einnig til annarra svæða. Það fer eftir viðfangsefnum, hvert svæðið er, en sem dæmi má nefna samstarf aðila í ferðaþjónustu við Breiðafjörð, samstarf sveitarfélaga á starfssvæði Breiðafjarðarnefndar, samstarf í NV-kjördæmi ofl. 
Vilji sveitarfélaganna stendur til þess að styrkja Snæfellsnes sem samheldið samfélag með aukinni samvinnu á ýmsum sviðum, ekki síst í atvinnumálum, um leið og unnið er með öðrum sveitarfélögum á Vesturlandi að því að efla landshlutann í heild.

Norðan og sunnan Snæfellsness eru fengsælir flóar, Faxaflói og Breiðafjörður og þangað hafa Snæfellingar sótt björg í bú um aldir. Fiskimiðin skammt undan landi og hlunnindi eyjanna á Breiðafirði eru mikilvæg verðmæti svæðisins, s.s. æðarvarp, þangfjörur, vorkópar, eggjataka og fuglaveiði. Hluti Breiðafjarðar tilheyrir sveitarfélögunum á Snæfellsnesi en svæðisskipulagsáætlun þessi nær ekki til þeirra þar sem Breiðafjörður er verndarsvæði sem sérlög gilda um. Einnig er í gildi verndaráætlun fyrir svæðið sem er í endurskoðun og í þeirri vinnu hafa m.a. komið fram tillögur um að unnið verði svæðisskipulag fyrir Breiðafjarðarsvæðið í heild sinni. Auk þess að vera verndarsvæði hefur Breiðafjörður verið tilgreint af íslenskum stjórnvöldum á yfirlitsskrá UNESCO í flokki menningar- eða náttúruarfleifðar, en á yfirlitsskránni eru þau svæði sem talið er koma til greina að tilnefna á heimsminjaskrá UNESCO. 


Samhengi við búsetuþróun liðinna ára

Síðustu áratugir hafa einkennst af fækkun fólks á landsbyggðinni. Þar er Snæfellsnes ekki undanskilið, þó svæðið hafi að mörgu leyti haldið betur í sitt fólk en ýmis önnur svæði.  

Hér sést þróun mannfjölda á svæðinu á tímabilinu 1971-2012.Þróun mannfjölda á Vesturlandi frá 1971-2012. 
Heimild: Hagvísir Vesturlands 2013


Sé litið tvo til þrjá áratugi aftur í tímann kemur í ljós að íbúafækkun er heldur ekki algild og sveiflur hafa verið í íbúaþróun, upp á við og niður á við, í einstökum sveitarfélögum.

 Mannfjöldi 1971-2012 – vísitala þar sem 1971 er grunnár
Heimild: Hagvísir Vesturlands 2013, Hagstofa Íslands og eigin útreikningar
 


Áhyggjuefni er hve stór hluti fækkunarinnar, sem orðið hefur á Snæfellsnesi, er úr hópi yngri íbúa. Þannig hafa samfélögin á Snæfellsnesi mörg hver "elst" mjög hratt. Afleiðingar þess eru að vinnandi höndum fækkar og tekjur dragast hraðar saman heldur en íbúaþróunin gefur til kynna. Fækkun í yngri aldurshópum veldur því einnig að kostnaðarsamara verður að halda úti þjónustu við þá, sérstaklega leik- og grunnskólum. Hagkvæmni stærðarinnar - eða óhagkvæmni smæðarinnar - segir þar til sín.Meðalaldur á Vesturlandi og á landinu öllu frá 1990-2012. 
Heimild: Hagvísir Vesturlands 2013 
Fækkun íbúa og fækkun starfa helst í hendur. Íbúafækkun getur verið afleiðing af fækkun starfa, en fækkun starfa getur líka leitt af íbúafækkun, því bæði verður aðgengi fyrirtækja að starfskröftum þá lakara og eins er þekkt að fólk flytji störfin sín með sér í burtu. 

Gegnsæju bjálkarnir á myndunum hér fyrir neðan sýna fækkun í viðkomandi aldurshópum, á árabilinu 2003-2013.

 
Aldurstré á Snæfellsnesi 
Árið 2013 í samanburði við 2003. Heimild: SSV, Hagvísir Vesturlands, desember 2013.
Aldurstré á Snæfellsnesi, framh.
Árið 2013 í samanburði við 2003. Heimild: SSV, Hagvísir Vesturlands, desember 2013.


Fjölgun erlendra íbúa á Snæfellsnesi á síðustu árum vegur upp á móti fækkuninni í heild sinni. Ef aðflutningur erlendra íbúa hefði ekki komið til, þá hefði fækkunin verið enn meiri á Snæfellsnesi. Árið 2013 voru erlendir ríkisborgarar 511 af 3.955 íbúum í sveitarfélögunum fimm, eða tæp 13% íbúanna. Það er því full ástæða fyrir Snæfellinga að horfa á þann auð sem felst í erlendum íbúum og velta fyrir sér hvernig hann megi blómstra sem best á svæðinu á komandi árum - ekki síst unga fólkið, sem hér er að alast upp.


Myndin hér fyrir nenðan sýnir fjölda erlendra ríkisborgara í sveitarfélögunum á Snæfellsnesi. Í Hagvísi Vesturlands (des. 2013) segir: "
Samkvæ
mt tölum Hagstofu Íslands voru 
511 útlendingar á Snæfellsnesi árið 2013. [...] 
Þá urðu ýmsar breytingar á fjölda 
útlendinga milli áranna 2011 og 2012. Það var 
fjölgun um [...] 
46 (9,9%) 
íbúa á Snæfellsnesi [...] 
Á landinu öllu fjölgaði þeim hins vegar 
um 489 (2,3%)."

Fjöldi útlendinga á Vesturlandi 1998-2013. 
Heimild: Hagstofa Íslands


Afleiðingar samdráttar í veiddum afla síðustu misserin hafa sagt til sín í sjávarbyggðunum á Snæfellsnesi, en á móti kemur að hærra verð hefur fengist fyrir sjávarafurðir og tekjur sjávarútvegsins hafa því ekki dregist saman, sem aflasamdrætti nemur. Alvarlegt ástand í efnahagsmálum á Íslandi er ekki einungis bundið við ríkið og ríkissjóð, heldur einnig sveitarfélögin, sem flest hafa þurft að gæta ýtrasta aðhalds og draga úr rekstrargjöldum sínum. Þau leita einnig leiða til að auka tekjur sínar og laða til sín fólk og fyrirtæki.

Vaxandi þungi hefur verið á aðgerðir af hálfu opinberra aðila, bæði ríkis og sveitarfélaga, um að greiða fyrir nýsköpun eða veita annan stuðning við atvinnuskapandi áætlanir, verkefni og stakar aðgerðir. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa reynt að búa í haginn fyrir atvinnulíf á margvíslegan hátt og fyrirtæki brugðist við eftir bestu getu.

Vilji er til staðar að snúa vörn í sókn og horfa til framtíðartækifæra, til þess hvernig megi nýta margvíslega auðlegð svæðisins og byggja á sérkennum þess. Þannig er leitast við að styrkja grunn sem leitt getur til fjölbreyttari atvinnustarfsemi.

Samhengi við ýmis stefnuskjöl og verkefni

Svæðisskipulagið er samræmingargrundvöllur fyrir gildandi stefnu og fjölmörg fyrri og núverandi verkefni á sviði atvinnu-, umhverfis- og félagsmála, sem unnið er að eða unnið hefur verið að á Snæfellsnesi og Vesturlandi mörg undanfarin ár. Þessi verkefni (sjá heimildaskrá) voru rýnd og flokkuð eftir þemum og viðfangsefnum svæðisskipulagsins þannig að unnt væri að taka mið af þeim við stefnumótunina. Margir eiga að kannast við fingraförin sín í svæðisskipulagstillögunni þar sem í henni er dregin saman á einn stað, stefna og hugmyndir sem hafa komið fram í fjölmörgum stefnuskjölum og verkefnum á liðnum árum.

Í umhverfisskýrslu skipulagstillögunnar er gerð grein fyrir samræmi eða ósamræmi stefnu svæðisskipulagsins við viðeigandi áætlanir.


Samhengi við aðalskipulag

Aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaganna eru aðalverkfærið til að framfylgja stefnu svæðisskipulagsins, en þær voru jafnframt útgangspunktur fyrir stefnumótunina. Almenn stefnumið í aðalskipulagi sem voru samhljóma milli sveitarfélaga eða stefnumið sem gátu átt við fyrir svæðið allt voru færð inn í svæðisskipulagið. 

Staða aðalskipulags sveitarfélaganna er þessi:                               
Aðalskipulag Snæfellsbæjar 1995-2015, staðfest 
8.7.1997.
Aðalskipulag Grundarfjarðar 2003-2015, staðfest 8.12.2003 (þéttbýli) og 12.02.2010 (dreifbýli).
Aðalskipulag Helgafellssveitar 2012-2024, tillaga auglýst 21.5.2013. Er í lokaafgreiðslu.
Aðalskipulag Stykkishólms 2002-2022, staðfest 9.7.2002.
Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps, tillaga auglýst 21.10.2011 og afgreidd í sveitarstjórn 13.12.2013.
Gildandi aðalskipulag og tillögur í lokaafgreiðslu, uppfært út frá litum skipulagsreglugerðar. Mynd: Alta ehf.ATH! TIL UPPLÝSINGAR:
Í skjali sem er í viðhengi hér fyrir neðan hefur stefna í gildandi og eldri stefnuskjölum ásamt upplýsingum úr fyrri og núverandi verkefnum, verið flokkuð inn í beinagrind svæðisskipulagsins.

Drög að stefnu svæðisskipulagsins eru m.a. unnin upp úr þessu efni.

Þetta er bakgrunns vinnuskjal fyrir ráðgjafa, svæðisskipulagsnefnd og stýrihóp og er ekki ætlað til birtingar með svæðisskipulagstillögunni á auglýsingartíma en er kynnt nú á kynningartíma.

Ċ
Matthildur Kr. Elmarsdottir,
Jul 2, 2013, 4:52 AM