Áherslur

Efnisyfirlit:
Skýr mynd af svæðinu sem heild
Nýting sérkenna svæðisins innan atvinnugreina
Atvinnugreinar tvinnaðar saman
Breið verðmætasköpun
Sjálfbær nýting auðlinda og efling sameiginlegra innviða
Víðtækt samráð Í anda Evrópska landslagssáttmálans
Hliðsjón af reynslu evrópskra svæðisgarða

Á grunni leiðarljósa skipulagsvinnunnar og hlutverks svæðisskipulagsins var unnið eftir neðangreindum áherslum.

Skýr mynd af svæðinu sem heild

Við svæðisskipulagsgerðina var lögð áhersla á að draga upp heildstæða mynd af náttúru, menningu og sögu S
næfellsness og þeim anda sem einkennir svæðið. Var það gert til að svæðið í heild fengi sem skýrasta ímynd í hugum bæði heimamanna og gesta. Í þeim tilgangi var sett fram yfirlit yfir auðlindir og verðmæti svæðisins og þau gögn birt á vef. Með þessu skapaðist mikilvægur grunnur að sameiginlegri framtíðarsýn og stefnu um leið og gögn voru gerð íbúum aðgengileg.

Nýting sérkenna svæðisins innan atvinnugreina

Þegar dregin hafði verið upp af mynd af sérkennum og staðaranda svæðisins var fjallað um hvernig hægt væri að vinna með þau og nýta á áhrifaríkan hátt innan ólíkra atvinnugreina, t.d. til markaðssetningar eða þróunar vöru og þjónustu. Í vinnuhópum voru settar fram hugmyndir um stefnu með áherslum þar að lútandi og stefna síðan mótuð m.a. á þeim grunni.





Atvinnugreinar tvinnaðar saman

Í skipulagsvinnunni var sérstaklega skoðað hvernig atvinnugreinar gætu unnið saman með sérkenni og anda svæðisins, t.d. til að þróa nýjar vörur eða nýja þjónustu. Til að setja fram hugmyndir um þetta voru fulltrúar mismunandi atvinnugreina, stofnana og samtaka á svæðinu leiddir saman í vinnuhópum. Hlutverk svæðisskipulagsins er síðan bæði að festa í sessi stefnu um hvernig sveitarfélögin og í samstarfi við atvinnulífið hyggjast stuðla að samvinnu atvinnugreina til eflingar byggðar á svæðinu og einnig stefnu um hvernig stuðlað verður að því að sérstaðan nýtist við þróun vöru og þjónustu.

Breið verðmætasköpun 

Við mótun svæðisskipulagsins var horft til þess hvernig mætti stuðla að verðmætasköpun í breiðum skilningi þess orðs. Lögð var áhersla á að efnisleg og óefnisleg verðmæti megi skapa í öllum geirum sem til samans geta styrkt og eflt samfélagið til langs tíma litið. 

Þannig má skapa umhverfisleg verðmæti, t.d. með því að vernda og nýta auðlindir; menningarleg verðmæti, t.d. með því að draga fram sögulegt samhengi og styrkja sjálfsmynd samfélagsins; félagsleg verðmæti, t.d. með því að hvetja fólk til dáða og stuðla að samvinnu; og síðast en ekki síst efnahagsleg verðmæti, t.d. með þróun nýrrar vöru, nýrrar þjónustu, nýrra fyrirtækja eða eflingu þeirra sem fyrir eru.

Tækifæri fyrir slíka verðmætasköpun geta t.d. verið á sviði miðlunar, fræðslu og rannsókna; vöruþróunar, nýsköpunar og gæðastýringar eða umsjónar og stjórnunar.

Sjálfbær nýting auðlinda og efling sameiginlegra innviða

Áhersla var á að marka almenna stefnu um nýtingu auðlinda og um umgengni þeirra, til nánari útfærslu í aðalskipulagi einstakra sveitarfélaga. Einnig var mörkuð almenn stefna um þá sameiginlegu grunngerð sem talin er nauðsynleg til að styðja við heildstæða þróun svæðisins, s.s. vegi, göngu- og reiðleiðir, fjarskipti og veitur.

Víðtækt samráð 

Við svæðisskipulagsgerðina var lögð áhersla á að ná til stofnana, félagasamtaka og samtaka í atvinnulífinu með því að bjóða þeim til þátttöku í vinnuhópum þar sem rætt var um verðmæti, tækifæri og áherslur til framtíðar. Fundað var einslega með nokkrum stofnunum og verkefnum, vegna sérstöðu þeirra. Þá var leitað til ungs fólks um stöðu og framtíðarmöguleika svæðisins.

Í anda Evrópska landslagssáttmálans

Svæðisskipulagsverkefnið tekur mið af Evrópska landslagssáttmálanum. Hann hefur það að markmiði að stuðla að verndun landslags, stjórnun þess og markvissu skipulagi. Einnig er markmið sáttmálans að stuðla að samvinnu milli Evrópuríkja í málum sem snúast um landslag. Sáttmálinn skilgreinir landslag sem „svæði sem fólk skynjar og fengið hefur einkenni vegna samspils náttúrulegra og/eða mannlegra þátta“ (lauslega þýtt úr ensku útgáfunni sem segir: Landscape means an area, as perceived by people, whose character is the result of the action and interaction of natural and/or human factors).  

Íslensk stjórnvöld undirrituðu sáttmálann 29.6.2012 og það er m.a. á þeim grunni sem svæðisskipulag fyrir Snæfellsnes tekur mið af áherslum sáttmálans. Með undirritun hans samþykkja þjóðir að:
  • viðurkenna mikilvægi landslags með lagaákvæðum
  • setja og framfylgja stefnu um landslagsvernd, -stjórnun og –skipulag
  • skilgreina ferli sem veitir almenningi, sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum möguleika á að taka þátt í að móta stefnu og framfylgja stefnunni
  • tvinna landslagssjónarmið inn í skipulagsstefnu og menningar-, umhverfis-, landbúnaðar-, velferðar- og efnahagsstefnu
  • auka vitund samfélagsins og viðeigandi aðila um gildi landslags
  • stuðla að þjálfun sérfræðinga og uppbyggingu háskólamenntunar í landslagsmati, stefnumótun, verndun og stjórnun
  • greina landslag og þá krafta sem móta það og breyta því, og meta gildi þess, m.a. með því að skiptast á reynslu við önnur Evrópulönd
  • setja markmið um gæði landslags í samráði við almenning
  • framfylgja stefnunni

Hliðsjón af reynslu evrópskra svæðisgarða

Við svæðisskipulagsgerðina hefur verið horft til reynslu svæðisgarða í Evrópu, m.a. með tilliti til greiningar og stefnumótunar um landslag og verðmæti sem í því búa en svæðisgarðsverkefni í Noregi eru þau einu, til þessa, sem tengja sig beint við Evrópska landslagssáttmálann.