Vinnuferli, samráð og kynning

Efnisyfirlit:
Adragandi svæðisskipulagsgerðar
Áfangar og verkþættir verkefnisins
Starf vinnuhópa
Fundir með ungu fólki
Önnur kynning

Aðdragandi svæðisskipulagsgerðar

Farið var af stað með gerð svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes í kjölfar þess að sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og nokkur félög sem eru samnefnarar í atvinnulífi á svæðinu gerðu með sér samstarfssamning í byrjun mars 2012 um að hefja undirbúning að stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi

Svæðisgarður er byggðaþróunarmódel sem á sér evrópska fyrirmynd og snýst um fjölþætt samstarf sveitarfélaga, fyrirtækja, félaga og samtaka á svæði sem myndar landslags- og menningarlega heild. Hugmyndin er að með samtakamætti og skýrri sýn megi skerpa á sérstöðu svæðis og efla atvinnulíf og byggð. 

Mikilvægt er því að samstarfið byggi á sameiginlegri, heildstæðri sýn um þróun svæðisins m.t.t. auðlinda þess og sérkenna. Svæðisskipulag er verkfæri sem hægt er að nýta í þessum tilgangi og ákváðu sveitarfélögin þess vegna að hefja gerð svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes í nánu samstarfi við fulltrúa úr atvinnulífinu. 

Áfangar og verkþættir verkefnisins

Skipulagsvinnan hófst með skipun svæðisskipulagsnefndar sem hafði yfirumsjón með gerð svæðisskipulagsins.
 Stýrihópur um svæðisgarðsverkefnið kom að áætlunargerðinni frá upphafi.

Annar áfangi verkefnisins var gerð verkefnislýsingar í samræmi við 23. gr. skipulagslaga þar sem kveðið er á um að við upphaf vinnu við gerð svæðisskipulagstillögu skuli taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem gerð sé grein fyrir áherslum, forsendum, fyrirliggjandi stefnu, samráði og kynningu.

Í lýsingunni var gerð grein fyrir hvernig staðið yrði að svæðisskipulagsgerðinni. Íbúum svæðisins og öðrum hagsmunaaðilum gafst tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum um nálgun við áætlunargerðina og helstu forsendur hennar.  

Svæðisskipulagsnefnd samþykkti lýsinguna á fundi sínum 30. ágúst 2012. Lýsingin var lögð fyrir sveitarfélögin sem standa að svæðisskipulaginu og síðan send Skipulagsstofnun og völdum aðilum til umsagnar í nóvember 2012, þ.m.t. aðliggjandi sveitarfélögum. Á sama tíma var lýsingin kynnt almenningi með birtingu hennar á vef svæðisgarðsverkefnisins. 

Vinna við sjálfa tillögugerðina (3. og 4. áfangi) fólst annars vegar í gagnaöflun, kortlagningu, greiningu og túlkun og hins vegar í stefnumótun og umhverfismati. 

Greiningar- og stefnumótunarvinnan byggði einkum á:
  • Landfræðilegum gögnum sem var safnað saman frá ýmsum stofnunum og heimildum og sett fram á kortaformi til að ná fram heildstæðri mynd af Snæfellsnesi öllu. Kortin voru fyrst kynnt sem Atlas Snæfellsness en síðar gerð aðgengileg í verkfærakistu til að hvetja til skoðunar þeirra og nýtingar.
  • Viðauka með lýsingu svæðisskipulagsverkefnisins þar sem megindráttum í náttúrufari, byggðarþróun, menningu og sögu svæðisins er lýst.
  • Greiningu á landslagi Snæfellsness, í víðri merkingu orðsins landslags. Þar er Snæfellsnesi skipt upp í nokkur „karaktersvæði“ og hverju þeirra lýst.
  • Spurningakönnun var gerð meðal ferðamanna sumarið 2012, um ferðalag þeirra og upplifun af Snæfellsnesi. 
  • Efni frá fundum þriggja vinnuhópa og með ungu fólki af Snæfellsnesi, sbr. um samráð að neðan.
  • Efni frá fundum svæðisskipulagsnefndar, en þá fundi sátu jafnan fulltrúar í stýrihópi svæðisgarðsverkefnis, m.a. fulltrúar atvinnugreina á svæðinu.
Heildartillaga var, af hálfu svæðisskipulagsnefndar, kynnt fyrir íbúum. Finna má lýsingu á ferlinu í kafla um kynningu tillögu að svæðisskipulagi.

Starf vinnuhópa

Settir voru á fót vinnuhópar um svæðisgarð á Snæfellsnesi í nóvember 2012 til að aðstoða svæðisskipulagsnefnd og stýrihóp svæðisgarðsverkefnisins, við að draga fram sérkenni og auðlindir Snæfellsness, tækifærin sem búa í þeim og hvaða áherslur ætti að marka fyrir svæðið. Vinnuhóparnar voru þrír og í hverjum þeirra sátu 10-15 manns. 

Tilgangurinn með skipun hópanna var að fá sjónarmið og hugmyndir sem flestra og því var leitað til fólks úr ýmsum atvinnugreinum og sviðum samfélagsins, hvaðanæva af svæðinu. Það var gert út frá greiningu á hagsmunaaðilum og mögulegum samstarfsaðilum sem tengjast viðfangsefnum svæðisskipulagsins á einn eða annan hátt. 

Í hópunum voru fulltrúar bænda, smábátaeigenda, ferðaþjónustu, stéttarfélaga, útgerðar, fiskvinnslu, iðnaðar, listgreina, handverks, veiði, þjóðgarðs, safna, rannsóknar- og þjónustustofnana, skóla o.fl.
Hópunum var ætlað að ræða verðmætasköpun á mismunandi sviðum atvinnulífs og samfélags, s.s. með frekari vöruþróun, nýsköpun, miðlun, fræðslu, rannsóknum, gæðastýringu, umsjón með landi og auðlindum og stjórnun. Einnig fjölluðu hóparnir um það hvaða verðmætum í umhverfi, sögu og menningu svæðisins ætti að viðhalda og styrkja. 

Vinnuhóparnir funduðu í þrjú skipti, frá nóvember 2012 fram í febrúar 2013. Efni frá fundunum var tekið gróflega saman í skýrslu sem birt var á vef svæðisgarðs í mars 2012, auk þess sem efniviður fundanna í heild sinni var aðgengilegur vinnuhópum, svæðisskipulagsnefnd og sveitarstjórnum á lokuðum vef. Tillögudrög voru jafnframt kynnt fulltrúum sem sátu í vinnuhópunum síðla árs 2013. Ábendingar bárust frá þremur fulltrúum og var unnið úr þeim fyrir kynningu tillögunnar fyrir umsagnaraðilum og almenningi.

Fundir með ungu fólki

Í lok desember 2012 var haldinn kynningar- og spjallfundur í Grundarfirði með ungu fólki á Snæfellsnesi, í tengslum við svæðisgarðsverkefnið. Markmið fundarins var að fá fram skoðanir þeirra á því hverjir væru helstu kostir þess að alast upp og/eða búa á Snæfellsnesi og hvaða tækifæri ungt fólk sæi í störfum og búsetu þar í framtíðinni. Samantekt af umræðum fundarins var birt á vef svæðisgarðsverkefnisins, en efniviðurinn var m.a. nýttur í vinnu við mótun stefnu í svæðisskipulaginu.

Sama á við um samantekt af fundi sem haldinn var í byrjun febrúar 2013, en þá hittist annar hópur af ungu fólki af Snæfellsnesi í tengslum við svæðisgarðinn. Fundurinn var haldinn í Reykjavík og var ætlað að ná til þeirra sem þar dvelja við nám eða störf. 

Önnur kynning og samráð 

Framgangur vinnu við svæðisskipulagið var kynntur á vef svæðisgarðsverkefnisins og á Fésbókarsíðu þess. Gerð voru stutt myndbönd í upphafi vinnunnar til að kynna  svæðisgarðsverkefnið og undirritun samstarfssamnings Einng var gert myndband til að skýra ferli og áherslur svæðisskipulags og undirbúning svæðisgarðs og annað um starf skipulagsnefndarMyndböndin voru aðgengileg á svæðisgarðsvef og á Youtube.

Lokaðir fundir voru nokkrir, sérstaklega hugsaðir til að ræða samvinnu og framlag einstakra aðila til verkefnisins og í svæðisskipulagsvinnuna. Sem dæmi má nefna fundi með starfsfólki landshlutasamtaka sveitarfélaga, SSV, með Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, fulltrúum sem standa að hugmynd um jarðvang á Snæfellsnesi, með fulltrúum einstakra atvinnugreina, t.d. var fundað með aðilum úr sjávarútvegi á Snæfellsnesi í september 2012. Fleiri mætti nefna. 

Kynningar hafa verið haldnar inná fundum hjá sveitarstjórnunum og í stjórnum og á aðalfundum félagasamtaka sem að svæðisgarðsverkefninu standa, einnig á fundi héraðsnefndar þann 16. apríl 2013. 

Í júní 2013 buðu svæðisskipulagsnefnd og stýrihópur fulltrúum úr sveitarstjórnum og skipulagsnefndum á svæðinu, auk skipulagsfulltrúa sveitarfélaganna, til fundar til að ræða um uppbyggingu og framsetningu skipulagsáætlunarinnar og það tækifæri sem felst í skipulagsgerðinni fyrir sveitarfélögin sameiginlega. Samskonar fundur var haldinn 11. mars 2014, þar sem drög að svæðisskipulagstillögu voru kynnt sömu aðilum. Þar var auk þess rætt um fyrirkomulag kynningar tillögunnar. 
Þann 13. mars 2014 voru drög að svæðisskipulagstillögu send um 110 aðilum á Snæfellsnesi og á landsvísu, til umsagnar og þeim gefinn kostur á að koma að ábendingum eða fyrirspurnum. Sveitarfélögin og nærliggjandi sveitarfélög voru þeirra á meðal. Þann 16. apríl 2014 var sömu aðilum send umhverfisskýrsla vegna svæðisskipulagstillögunnar og gefinn frestur til 5. maí að gefa ábendingar eða senda fyrirspurnir. Fundað var sérstaklega með einum þessara umsagnaraðila og fengnar gagnlegar ábendingar vegna tillögunnar. Þann 9. apríl 2014 var sett af stað kynning fyrir almenningi og stóð hún til 5. maí 2014. Kynningin fór fram þannig að slóð þessa vefs var gerð opinber, frá 9. apríl 2014. Vakin var athygli á tillögunni og vefnum með umfjöllun í fjölmiðlum og á vefsíðum sveitarfélaga. Einnig með bæklingi sem dreift var til allra heimila og fyrirtækja á Snæfellsnesi dagana 1.-6. maí 2014. Kynningarfundir (opið hús) voru haldnir á 3 stöðum á Snæfellsnesi 2. maí 2014, þar sem kostur gafst á að kynna sér tillöguna, gera fyrirspurnir og leggja fram athugasemdir eða ábendingar. Fundirnir voru auglýstir í staðar- og héraðsblöðum, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 30. apríl 2014, auk þess á vefsíðum aðila.

Verkefnið hefur verið kynnt á fundum hjá ýmsum félagasamtökum á Snæfellsnesi, ýmist að beiðni þeirra sjálfra eða að frumkvæði stýrihópsfulltrúa eða verkefnisstjóra. Þannig hefur verkefnið verið kynnt á fundum hjá 4 Lionsklúbbum á svæðinu, Soroptimistaklúbbi, Félagi eldri borgara og hjá Emblunum, menningarfélagi í Stykkishólmi. Slíkir kynningarfundir hafa haft létt yfirbragð og eru liður í að kynna svæðisgarð og skipulagsvinnu vegna hans en jafnframt að fá fram skoðanir fundarmanna. Ábendingar og viðbrögð þátttakenda á slíkum fundum hafa nýst í vinnu við svæðisskipulagsgerðina. Verkefnið hefur verið kynnt á 3 íbúafundum í Grundarfirði, á mismunandi stigum þess. 

Svæðisgarðsverkefnið og skipulagsvinnan vegna þess hefur einnig fengið nokkra kynningu utan svæðisins. Um verkefnið var fjallað í Landanum á RÚV í mars 2012 og í morgunútvarpi RÚV 7. maí 2013. Verkefnið var kynnt fyrir á þriðja hundrað manns á Ferðamálaþingi 2013. Þá hefur verið fjallað um það í fréttamiðlum á Vesturlandi og skrifaðar greinar í vikublöðin á svæðinu, Jökul (Snæfellsbær og Grundarfjörður) og Stykkishólmspóstinn (Stykkishólmur og Helgafellssveit). Greinar og áríðandi auglýsingar sem hafa verið skrifaðar í blöðin hafa einnig verið sendar íbúum í Eyja- og Miklaholtshreppi í tölvupósti gegnum oddvita, þar sem ekkert vikublað er borið þar í hús, utan blöð í áskrift.

Verkefnið hefur einnig verið kynnt fyrir erlendum aðilum. Norræn skipulagsyfirvöld heimsóttu Snæfellsnes í ágúst 2013 og fengu kynningu á svæðisskipulagsvinnunni og hún hefur einnig verið kynnt hjá Samtökum norskra svæðisgarða (Norske parker).