Leiðarljós

Efnisyfirlit: 
Tilgangur leiðarljósanna
Gott samfélag
Sjálfbær þróun 
Nýsköpun
Samkeppnisforskot
Markaðssetning
Öryggi og virkni íbúa

Tilgangur leiðarljósanna

Við svæðisskipulagsgerðina var unnið eftir sex leiðarljósum sem er ætlað að undirbyggja enn frekar hlutverk svæðisskipulagsins. Þau lýsa þeirri meginhugmyndafræði sem svæðisskipulagsvinnan hefur gengið út frá, þ.e. að örva megi atvinnulífið og efla samfélagið á Snæfellsnesi með: frumkvæði og samvinnu, aðgengilegum upplýsingum um auðlindir og sérkenni svæðisins, skýrum skilaboðum um hvað svæðið stendur fyrir, góðum samgöngu- og fjarskiptakerfum, ábyrgri stjórnun auðlinda og eflingu atvinnulífs sem byggir á sérkennum svæðisins. Sjá nánar um hvert og eitt leiðarljós hér að neðan.

Gott samfélag

Frumkvæði heimamanna, samvinna og sameiginleg sýn er lykilatriði fyrir árangur – um það snýst gott samfélag.
Mikilvægt er að styðja við og byggja á frumkvæði heimamanna og að sveitarstjórnir, fyrirtæki, félagasamtök og íbúar móti sameiginlega framtíðarsýn fyrir Snæfellsnes. Stefnu fyrir svæðið verði síðan markvisst fylgt eftir. Þannig nýtist best kraftur og þekking heimamanna og stuðlað er að því að markmið náist.

Sjálfbær þróun

Jafnvægi þarf að vera á milli efnhags, samfélags og umhverfis – um það snýst sjálfbær þróun.
Mikilvægt er að vernda og styrkja þau verðmæti sem búa í sérkennum, auðlindum og sögu Snæfellsness. Um leið þarf að leita leiða til að nýta þau svæðinu til framdráttar, með hófsömum hætti og án þess að af hljótist mengun eða að skertir séu möguleikar íbúa framtíðarinnar til að mæta sínum þörfum. Þannig er hugsað um hag núverandi og komandi kynslóða út frá heildarsýn á umhverfi, hagkerfi og samfélag.


Nýsköpun

Upplýsingar og ný þekking getur kveikt hugmyndir – um það snýst nýsköpun.
Mikilvægt er að auðvelda íbúum og fyrirtækjum á Snæfellsnesi að nýta tækifærin sem búa í sérkennum og auðlindum svæðisins, m.a. með fræðslu, rannsóknum og aðgengilegum upplýsingum um sérkenni svæðisins og möguleikana sem í þeim búa. Þannig geta hugmyndir kviknað og sambönd myndast.

Samkeppnisforskot

Þróun vöru og þjónustu á að byggja á sérkennum svæðisins – um það snýst varanlegt samkeppnisforskot.
Mikilvægt er að nýta sérkenni og auðlindir svæðisins til verðmætasköpunar og skilgreina mögulegar leiðir til þess. Þannig styrkist aðdráttarafl og samkeppnisstaða svæðisins. 

Markaðssetning

Skýr skilaboð um svæðið skapa skýra ímynd – um það snýst góð markaðssetning.
Mikilvægt er að skilaboð heimamanna; upplýsingar um sérkenni Snæfellsness og tækifæri til upplifunar og afþreyingar, séu skýr og aðgengileg þeim sem sjá hag í að nýta þau eða njóta þeirra. Þannig eru þeim færðir lyklar að fjársjóðum Snæfellsness. 

Öryggi og virkni íbúa

Samgöngu- og fjarskiptakerfi þurfa að vera góð – um það snýst öryggi og virkni íbúa.
Mikilvægt er að íbúar og gestir komist öruggir ferða sinna og geti átt samskipti auðveldlega. Það er einnig lykilatriði fyrir uppbyggingu atvinnulífs. Þannig er stuðlað að ríkum samskiptum og möguleikum til að nýta upplýsingar, koma þeim á framfæri og njóta svæðisins á sem fjölbreyttastan hátt.