Hlutverk

Efnisyfirlit:
Sameiginleg framtíðarsýn
Sóknaráætlun sveitarfélaganna og atvinnulífsins
Rammi fyrir aðalskipulag og deiliskipulag

Sameiginleg framtíðarsýn

Meginhlutverk Svæðisskipulags Snæfellsness, er að leiða byggðaþróun á Snæfellsnesi með því að marka og festa í sessi sameiginlega framtíðarsýn og stefnu sveitarfélaganna um umhverfi, atvinnulíf og þekkingu á svæðinu.Sóknaráætlun sveitarfélaganna og atvinnulífsins


Stefnan er unnin í nánu samstarfi við fulltrúa úr atvinnulífinu og frá félagasamtökum (sbr. umfjöllun um aðila og samráð). Stefnan er því í reynd sóknaráætlun Snæfellinga, um það hvernig þeir - sveitarfélögin og atvinnulífið í samvinnu við íbúa - hyggjast stuðla að því í sameiningu að þróun atvinnulífs og byggðar á Snæfellsnesi taki í auknum mæli mið af sérkennum svæðisins m.t.t. náttúru, menningar og mannauðs, sem aftur fléttast saman í staðaranda Snæfellsness.

Sá hluti áætlunarinnar sem ekki snýr beint að hefðbundnum umhverfis- og skipulagsmálum, kallar í flestum tilvikum á samvinnu við stofnanir og atvinnulíf. Því er gert ráð fyrir að unnið verði að slíkum viðfangsefnum undir hatti svæðisgarðs eða með annars konar samstarfi sveitarfélaganna og atvinnulífsins.

Rammi fyrir aðalskipulag og deiliskipulag

Svæðisskipulagið er það sem kalla má stefnumarkandi skipulagsáætlun (strategic spatial plan). Það þýðir að skipulagið setur fram heildstæða almenna stefnu sem segir í hvaða átt menn ætla að ganga og í grófum dráttum hvernig, en útfærir ekki landnotkun eða grunngerð á uppdrætti eða setur nákvæma skipulagsskilmála. 

Stefna svæðisskipulagsins - einkum þau markmið sem snúa að mótun umhverfis og byggðar - leggur þannig grunn sem verður nánar útfærður í aðalskipulagi hvers sveitarfélags og í deiliskipulagi einstakra svæða. Gögn sem hefur verið safnað og greiningar sem unnar hafa verið við svæðisskipulagsgerðina munu þannig nýtast beint við aðalskipulagsgerð sveitarfélaganna.