Uppbygging

Efnisyfirlit:                                                                                                   
Kaflaskipting                                                                                        
Framtíðarsýn                                                                                      
Grunnur                                                                                              
Áætlun                                                                                              

Kaflaskipting

Svæðisskipulagið skiptist í þrjá meginhluta:
Framtíðarsýn, grunn og áætlun. Á eftir áætluninni er því lýst hvernig staðið verður að framfylgd hennar. 
Gerð er grein fyrir umhverfismati svæðisskipulagstillögunnar í umhverfisskýrslu.

Framtíðarsýn

Dregin er upp mynd af því hvað einkennir Snæfellsnes í framtíðinni. Jafnframt er lagður grunnur að sameiginlegri ímynd (vörumerki) fyrir allt Snæfellsnes, sem stefna svæðisskipulagsins stuðli að og sem nýtt verði markvisst í allri markaðssetningu og kynningu fyrir snæfellska vöru, þjónustu og svæðið í heild.

Grunnur

Í grunninum er gerð grein fyrir helstu verðmætum og tækifærum sem liggja í umhverfi, menningu og mannauði Snæfellsness. Dregin eru saman helstu verðmæti og tækifæri Snæfellsness sem fulltrúar í vinnuhópum tilgreindu eða skipulagsráðgjafar lásu út úr ýmsum heimildum. Umfjölluninni er ekki ætlað að vera tæmandi, heldur gefa grófa mynd af því sem svæðið býr yfir. Ítarlegri umfjöllun um umhverfisaðstæður, sögu og menningu svæðisins er að finna í viðauka með verkefnislýsingu.

Áætlun

Áætlunin sjálf, sem skilgreinir markmið og leiðir að þeim, er sett fram í sex málaflokkum eða þemum.
Þessi þemu byggja á hlutverki svæðisskipulagsins og greiningu á efni frá vinnuhópum.
Hvert þema skiptist upp í nokkur viðfangsefni. Viðfangsefnin eru útfærð með markmiðum og leiðum að þeim. 

Markmiðin eru þrennskonar:
  • Markmið sem snúa að mótun umhverfis og byggðar (merkt með U), til nánari útfærslu í aðal- og deiliskipulagi og við veitingu framkvæmda- og byggingarleyfa.
  • Markmið sem snúa að þróun atvinnustarfsemi (merkt með A), þ.m.t. vöruþróun og þróun opinberrar og einkarekinnar þjónustu við heimamenn og gesti, til nánari útfærslu í fjárhags-, framkvæmda- og verkefnaáætlunum sveitarfélaganna í samvinnu við atvinnulífið, stofnanir og félagasamtök.
  • Markmið sem snúa að þekkingu, miðlun og markaðssetningu (merkt með Þ), til nánari útfærslu í fjárhags-, framkvæmda- og verkefnaáætlunum sveitarfélaganna í samvinnu við atvinnulífið, stofnanir og félagasamtök.
Áætlunina má núna lesa út frá þemum. Ætlunin er að þegar svæðisskipulagið hefur verið samþykkt verði stefnan bæði aðgengileg eftir þemum og tegundum markmiða til að auka notagildi skipulagsins.