Áætlun eftir þemum‎ > ‎Ferðalag‎ > ‎

Leiðir að markmiðum um SNÆFELLSKT FERÐALAG

Efnisyfirlit: 
Staðarandi og gæði
Lykilþemu ferðamennsku, ferðaleiðir og áfangastaðir
Grunngerð ferðaþjónustunnar

Staðarandi og gæði

U23    
Staðarandi Snæfellsness styrkist við umhverfismótun og mannvirkjagerð, en hann einkennist af fjölbreytileika og andstæðum í landslagi og byggð og sterkum tengslum við    sjóinn og söguna, allt frá landnámi. Sjá nánar kafla um staðaranda og ímynd Snæfellsness.

U23.1   Nýta og útfæra nánar greiningu þessa svæðisskipulags á    náttúru, menningu og sögu, staðaranda og „karaktersvæðum       Snæfellsness, við aðal- og deiliskipulagsgerð.

U23.2   Gera grein fyrir, í deiliskipulagi og framkvæmda- og             byggingarleyfisumsóknum, hvernig tekið er tillit til staðarandans.                          
U23.3  Sjá einnig markmið og leiðir um landslag sveita og bæja í kafla um LANDSLAG.

U24    Ávinningur samfélagsins af ferðalögum um svæðið dreifist sem víðast og komið sé í veg fyrir ofálag á einstaka staði. 

U24.1   Stuðla að dreifingu ferðamanna sem víðast með því að        skipuleggja og kynna ferðaleiðir (göngu-, reið- og hjólaleiðir)            og móta áfangastaði um allt svæðið. 

U24.2  Gera úttekt á ástandi helstu ferðamannastaða og vinna síðan áætlun um lagfæringar þar sem úrbóta er þörf.

U24.3   Gera reglubundnar kannanir meðal ferðamanna um hvaða staðir eru heimsóttir, m.a. til að fylgjast með álagi á einstaka staði svo að hægt sé að bregðast við í tíma.

U24.4   Nýta umhverfismat við aðal- og deiliskipulagsgerð til að koma í veg fyrir álag á viðkvæm svæði og neikvæð áhrif.

U24.5   Hafa gott samráð við íbúa um stefnumótun og skipulag og nýta aðal- og deiliskipulagsferlið til að samræma landnotkun og starfsemi og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

U24.6   Sjá einnig markmið og leiðir í kafla um LANDSLAG.

A23    Þróun í ferðaþjónustu grundvallist á að nýta og styrkja staðaranda Snæfellsness, en hann einkennist af fjölbreytileika og andstæðum í landslagi og byggð og sterkum tengslum við sjóinn og söguna, allt frá landnámi. Sjá nánar kafla um staðaranda og ímynd Snæfellsness.

A23.1   Stuðla að þróun ferða, áfangastaða, leiðsagnar, gistingar, veitingastaða, veitinga og minjagripa sem endurspegla staðaranda Snæfellsness.

A23.2   Sjá einnig markmið og leiðir í kafla um LANDSLAG.

A24    Ferðaþjónusta á Snæfellsnesi einkennist af fagmennsku og umhverfisvitund.

A24.1  Vinna að vottun ferðaþjónustufyrirtækja eftir viðurkenndum gæða- og umhverfiskerfum.

A25    Heilsársstörfum í ferðaþjónustu fjölgi.

A25.1   Hvetja til samvinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu í samstarfi við Markaðsskrifstofu Vesturlands, um að skilgreina    „vetrarpakka“ sem markaðssettur verði með markvissum hætti.

A25.2  Skilgreina frekar grunngerð ferðaþjónustu á svæðinu og móta tillögur sem miða að því að tryggja lágmarksþjónustu utan háannatíma. 

A25.3   Stuðla að markaðssetningu á stuttum ferðalögum á öllum árstímum og nýta þannig nálægð við höfuðborgarsvæðið og heppilega stærð svæðisins.

A25.4   Stuðla að samvinnu við ferðaþjónustufyrirtæki utan og innan svæðisins um að setja saman 1-5 daga ferðir sem bjóða upp á sem fjölbreyttasta upplifun.

A26    Góðir og fjölbreyttir gistimöguleikar séu í boði.

A26.1   Greina þörf fyrir viðbótargistingu á svæðinu og setja fram tillögur um hvernig megi mæta henni. 

Þ29    Þekking ferðaþjónustuaðila á umhverfistúlkun (environmental interpretation) og sögutúlkun (heritage        interpretation) aukist, sem leið til að vinna meira með staðaranda svæðisins.

Þ29.1  Standa fyrir námskeiðum um umhverfis- og sögutúlkun með hliðsjón af VERKFÆRAKISTU SNÆFELLINGA.

Þ29.2  Stuðla að góðri þekkingu ferðaskrifstofa og annarra sem skipuleggja ferðir á Snæfellsnesi, á staðaranda svæðisins og stefnu Snæfellinga í þessu svæðisskipulagi.

Þ29.3  Dreifa upplýsingum skipulega til innlendra og erlendra ferðaskrifstofa, ferðaþjónustuaðila og leiðsögumanna. 

Þ30    Umhverfis- og gæðastarf sé innleitt með markvissum hætti.

Þ30.1   Halda námskeið um innleiðingu gæða- og umhverfiskerfis. Sjá í samhengi við umfjöllun um vörumerki í kafla um Ímynd Snæfellsness.

Þ30.2   Halda á lofti mögulegri viðurkenningu sem EDEN-gæðaáfangastaður í Evrópu, sem Ferðamálastofa heldur utan um, en Stykkishólmur var útnefndur sem slíkur staður árið 2011.

Þ30.3   Veita árlega umhverfisverðlaun. 

Þ31    Rannsóknir á sviði ferðamála á Snæfellsnesi eflist og niðurstöður þeirra nýtist. 

Þ31.1   Taka saman lista yfir gagnleg rannsóknarefni og hvetja háskólanemendur, fræðasetur og rannsóknarstofnanir til að nýta sér listann, ásamt því að hvetja til samvinnu milli aðila.

Þ31.2   Miðla niðurstöðum rannsókna til ferðaþjónustugeirans með markvissum hætti.

Þ32   Upplýsingar um ferðamöguleika á svæðinu séu sem aðgengilegastar fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Þ32.1  Hagnýta fjölbreytta tækni við upplýsingagjöf í gegnum SNÆFELLSNESVEFINN (sameiginlegan vef sveitarfélaganna og atvinnulífsins) þ.m.t. snjallforrit.

Lykilþemu ferðamennsku, ferðaleiðir og áfangastaðir

U25    Uppbygging ferðaleiða og áfangastaða sé markviss út frá lykilþemum í ferðamennsku sem skilgreind eru í þessari áætlun, á grunni     greiningar á svæðinu, samráðs við vinnuhópa og samhengi við þemu sem þegar er vísir að, ýmist á Vesturlandi sem heild eða á Snæfellsnesi sérstaklega. Sjá neðar.

U25.1   Skilgreina ferðaleiðir, í samvinnu við                landeigendur, ferðafélög og aðra hagsmunaaðila,        fyrir mismunandi fararmáta (gangandi, hjólandi,          ríðandi, akandi, siglandi) fyrir hvert lykilþema            (sjá þemu undir markmið A27 að neðan) og festa í aðal- og deiliskipulagi og/eða kynna á SNÆFELLSNESVEFNUM, eftir því sem við á út frá eðli og umfangi leiðar og hvort um stíg eða veg er að ræða eða einungis merkta leið. Móta stefnuna á grunni heildarúttektar á ferðaleiðum (göngu-, hjóla- og reiðleiðum) sem birtar hafa verið á hinum ýmsum kortum og vefsíðum. Ákveða hvaða leiðir eða hlutar leiða kalla á stígagerð eða aðrar framkvæmdir.

U25.2   Skilgreina legu hjólastígs umhverfis Snæfellsnes, festa hann í aðalskipulagi hvers sveitarfélags og gera áætlun um gerð hans og kynningu. Sjá í samhengi við stefnu um GRUNNGERÐ – Stíga.

U25.3  Skilgreina gönguleið umhverfis Snæfellsnes með áningarstöðum og merktum leiðum niður að sjó á völdum stöðum. Þannig sé unnt að ganga allan hringinn í nokkrum áföngum. Festa leiðina í aðalskipulagi hvers sveitarfélags og gera áætlun um að gera hana greiðfæra, stika og kynna. Sjá í samhengi við stefnu um GRUNNGERÐ – Stíga. 

U25.4  Skilgreina reiðleið umhverfis Snæfellsnes í aðalskipulagi í samvinnu við hagsmunaaðila og kynna hana eftir því sem við á.

U25.5  Setja reglur um umferð hjólreiðamanna um reiðleiðir.

U25.6  Endurhlaða og lagfæra vörður í samvinnu við minjavörð.

A27    Framboð á ferðum, gistingu, afþreyingu og dægradvöl aukist á fjölbreyttum sviðum ferðamennsku, en lögð sé áhersla á lykilþemu sem skilgreind eru í þessari áætlun.     

A27.1   Leggja megináherslu á að þróa vörur og þjónustu út frá eftirfarandi þemum og flétta inn í hvert þeirra möguleika á ferðum á mismunandi fararskjótum (tveimur jafnfljótum, hjólastól, reiðhjóli, mótorhjóli, hesti, bát, einkabifreið, almenningsvagni eða hópferðabíl) en hvetja til umhverfisvænna samgöngumáta. Einnig flétta inn í þemun áhugaverða áningarstaði og fjölbreytta möguleika til að njóta matar af svæðinu og upplifa matarmenningu þess. Þemun byggja á greiningu á auði og staðaranda Snæfellsness, sbr. kafla um GRUNN áætlunarinnar. Sjá einnig í samhengi við markmið um uppbyggingu ferðaleiða og áfangastaða að ofan.   

Strandmenning Snæfellsness: Þróa áfram verkefni tengd samspili landbúnaðar og    útvegs, hafs og lands, í fortíð og nútíð. Vinna t.d. í samhengi við Krókaverkefnið (Lífið við sjávarsíðuna – áfangastaðurinn Snæfellsnes) og samstarf á grunni Breiðafjarðarfléttunnar. 

Söguslóðir Snæfellsness: Þróa áfram verkefni tengd ríkri sögu svæðisins. Vinna t.d. í samhengi við Sögulandið Vesturland, verkefnið um Sögu og Jökul, fornminjarannsóknir að Gufuskálum, Sjóminjasafnið á Hellissandi, Pakkhúsið í Ólafsvík, Sögumiðstöðina (ath. nafn, er í breytingarferli) í Grundarfirði, Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn, Norska húsið í Stykkishólmi og Sögufylgjuverkefnið, sem nær m.a. yfir Staðarsveit. 
Jarðfræði Snæfellsness
:  Þróa áfram verkefni, ferðaleiðir og áfangastaði tengda fjölbreyttri og merkilegri jarðfræði svæðisins. Vinna t.d. í samhengi við Eldfjallasafnið í Stykkishólmi og stefnu þessa svæðisskipulags um jarðvang.


Lífríki Snæfellsness
: Þróa áfram verkefni tengd fuglaskoðun og annarri náttúruskoðun á sjó og landi. Vinna t.d. í samhengi við Breiðafjarðarfléttuna og skýrsluna
Fuglaskoðun á Snæfellsnesi og í Dölum sem gefin var út af Náttúrustofu Vesturlands og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi í mars 2012. 
Vatnið á Snæfellsnesi
:  Þróa áfram verkefni tengd ölkeldum, heitu og köldu vatni í ýmsu samhengi, m.a. tengt baðaðstöðu, heilsurækt og listum. Vinna t.d. í samhengi við Vatnasafnið í Stykkishólmi, verkefni Vatnavina á Snæfellsnesi og hugmyndir um heilsulindir við Laugargerði, á Lýsuhóli og við Berserkseyri. 

Sjórinn við Snæfellsnes
: Þróa áfram verkefni tengd sjósporti, s.s. brimbrettaiðkun, kajakróðri, köfun, sjósundi og stangveiði frá landi og af sjó.Dulmagn Snæfellsness
: Þróa áfram verkefni tengd krafti og töfrum Snæfellsjökuls og náttúru svæðisins, sögum af álfum og huldufólki, draugum, skrímslum, tröllum og geimverum. Vinna t.d. í samhengi við samstarf Sögufylgja á sunnanverðu Snæfellsnesi og Sveitaveginn.  

Grunngerð ferðaþjónustunnar

U26    Vegir og stígar svæðisins þróist í samræmi við þarfir íbúa og fjölgun ferðamanna. 

U26.1   Bæta vegakerfið og stígakerfið. Sjá markmið og leiðir í kafla um GRUNNGERРog markmið um ferðaleiðir, hér í þessum kafla um FERÐALAG

U27    Ein aðalupplýsingamiðstöð sé við lykilinngang inn á svæðið, en minni stöðvar á þéttbýlisstöðunum. 

U27.1   Koma upp sameiginlegri upplýsingamiðstöð (gestastofu) sveitarfélaganna á hentugum stað þar sem flestir sem ferðast um Snæfellesnesið eiga leið um. 

U27.2   Auka samstarf milli upplýsingamiðstöðva sveitarfélaganna.

U28    Hreinlætisaðstaða sé fullnægjandi.

U28.1   Greina hvar vantar hreinlætisaðstöðu í grennd við ferðamannastaði og vinna að því að leysa það mál.

U29    Góð aðstaða fyrir tjöld, fellihýsi, húsbíla og sambærilega gistimáta sé í boði á lykilstöðum á sunnan- og    norðanverðu Snæfellsnesi og í austur- og vesturenda þess.

U29.1  Gera úttekt á þeim svæðum sem fyrir eru  og athuga hvernig hægt sé að efla þau og styrkja og hvar mætti staðsetja ný. Festa staðina í aðalskipulagi hvers sveitarfélags.

A28    Samstarf ferðaþjónustuaðila innan Snæfellsness og á Vesturlandi í heild styrkist, svo og samvinna þeirra við sveitarfélögin.

A28.1  Auka samstarf í samvinnu við Markaðsstofu Vesturlands.

Þ33    SNÆFELLSNESVEFURINN (www.snaefellsnes.is) þróist sem aðalupplýsingaveita um það að búa, starfa og ferðast á Snæfellsnesi.

Þ33.1  Hafa aðgengilegar samræmdar upplýsingar um allt það helsta sem er í boði fyrir íbúa og ferðamenn á SNÆFELLSNESSVEFNUM. 

Þ34    Fræðsla, þjálfun og leiðbeiningar fyrir ferðaþjónustuaðila og þá sem hafa áhuga á að fara út í ferðaþjónustu eflist.

Þ34.1  Koma upp leiðsögumannanámi eða námskeiðum í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, í samstarfi við fag- og hagsmunaaðila. Sníða þau mögulega að mismunandi ferðamátum (göngu-, hjóla-, hesta- og bílferðum).

Þ34.2  Styrkja greinar í FSN sem nýtast ferðaþjónustu og hvetja til nýsköpunar í henni.

Þ34.3  Hafa góðan aðgang að ráðgjöf á sviði ferðaþjónustu í samstarfi við Markaðsstofu Vesturlands.

Þ35    Tengsl heimamanna við ferðamennsku og ferðaþjónustugeirann styrkist.

Þ35.1   Hvetja til verkefnis þar sem ferðamönnum gefst kost á að hitta heimamenn og verja tíma með þeim, t.d. með því að stofna sjálfboðaliðahóp, VINI SNÆFELLSNESS, - eða stofna fyrirtæki - sem ferðamenn geta haft samband við til að óska eftir tómstundafélögum, s.s. til að fara í gönguferð, hjólatúr, skoða safn eða fara út að borða eina kvöldstund. 

Þ35.2   Stofna sjálfboðaliðahóp, VINI SNÆFELLSNESS, þar sem fólk getur gefið kost á sér til að sinna ýmsum verkefnum í þágu ferðamennsku á Snæfellsnesi. Hugsunin er að virkja t.d. félaga í félögum til að vinna skipulega að tilteknum verkefnum sem samræmast stefnu svæðisskipulags. 

Comments