Framtíðarsýn‎ > ‎

Ímynd Snæfellsness

Efnisyfirlit:
Að marka svæði
Tengsl mörkunar svæða og skipulags
Lykilsvið og lykilorð Snæfellsness
Lykilsvæði Snæfellsness
Lykiltáknmyndir Snæfellsness

Að marka svæði

„Mörkun svæðis“ er íslensk þýðing á “Place branding“ eða “Regional branding“. Hugmyndin á bak við branding er sú að með því að draga fram sérkenni og sérstöðu svæðis (eða borgar, bæjar eða staðar) og vinna markvisst að því að móta og styrkja sjálfsmynd íbúa og ímynd svæðisins, megi laða að ferðamenn, fyrirtæki og nýja íbúa og þannig standast betur samkeppni um fólk og fjármagn.
                                                                                                                                  Í mörkun svæðis felst auðkenning
Slík mörkun hefur einkum verið notuð í tengslum við þróun og markaðssetningu ferðamannastaða og -svæða. Í æ ríkari mæli er hún þó sett í samhengi við byggðaþróun almennt. Með því að horfa ekki einungis til fjölgunar ferðamanna heldur almennt til þess hvernig megi örva atvinnulífið, t.d. með því að auka eftirspurn eftir staðbundinni framleiðslu og ýta undir vöruþróun á ýmsum sviðum, hefur “branding“ fengið víðari tilgang.

Tengsl mörkunar svæða og skipulags

Í “branding“ felst í stórum dráttum að: Skilgreina sérstöðuna eða ímyndina sem vinna á að; marka framtíðarsýn og stefnu um hvernig unnið skuli að henni; gera áætlun um hvernig ímyndinni verður miðlað; ákveða hvernig stjórnun og fjármögnun verður háttað; hanna vörumerki fyrir vörur og þjónustu og setja reglur um notkun þess. 

Eins og lýst er í kafla um 
áherslur hefur svæðisskipulagsvinnan einmitt gengið út á þetta, þ.e. að greina sérkenni og staðaranda, móta framtíðarsýn og setja fram stefnu. Stefnan miðar að því að skerpa ímynd Snæfellsness og sjálfsmynd Snæfellinga með því að skilgreina hvernig unnið verði með sérkenni svæðisins við mótun umhverfis og byggðarþróun atvinnustarfsemi og eflingu þekkingar og miðlunar. Þannig er stuðlað að því að Snæfellsnes, svæðið sjálft, verið sterkt vörumerki (“brand“)Á grunni stefnu svæðisskipulagsins er gert ráð fyrir stofnun svæðisgarðs sem mun, með aðilum á svæðinu, vinna að framfylgd stefnunnar, þróun vörumerkis fyrir vörur og þjónustu, miðlun og markaðssetningu. 

Hér að neðan er sett fram tillaga að skilgreiningu á ímynd Snæfellsness/vörumerkinu Snæfellsnesi sem gert er ráð fyrir að verði þróuð áfram í samvinnu sveitarfélaga og atvinnulífs. Skilgreiningin skiptist í þrennt: lykilorð og lykilsvið, lykilsvæði og lykiltákn Snæfellsness. Á grunni þessarar greiningar verði ímynd Snæfellsness þróuð áfram, þ.m.t. merki sem framleiðendur og þjónustuaðilar á svæðinu geta notað til að auðkenna vöru sína og þjónustu sem er í anda ímyndar Snæfellsness.

Lykilsvið og lykilorð Snæfellsness

Mikilvægt er að sameinast um lykilorð sem lýsa vel þeirri mynd sem sveitarstjórnir í samvinnu við atvinnulífið, ferðamálasamtök og íbúa vilja draga upp af svæðinu. Orðin eiga að lýsa staðarandanum sem best, þ.e. hvað einkennir svæðið, hverjir eru styrkleikar þess, hvaða sögur það segir og hvað er hægt að upplifa þar. Orðin eru notuð sem stef við þróun vöru og þjónustu, kynningu og markaðssetningu.  
Með því að sameinast um lýsingu á anda Snæfellsness er stuðlað að góðum skilningi heimamanna á mikilvægi og tækifærum sem felast í sérkennum svæðisins og möguleikunum á að vinna með þau, svæðinu til hagsbóta. Aðrir fá um leið skýrari mynd í kollinn af svæðinu og hvað þangað er að sækja. Þannig er reynt að hafa jákvæð áhrif á orðspor svæðisins og ímynd þess í hugum fólks, um leið og sjálfsmynd íbúa og sýn þeirra á svæðið er dregin fram og styrkt. Stefna svæðisskipulagsins miðar síðan öll að því að styrkja þessa ímynd.

Lykilorð fyrir Snæfellsnes verði þróuð áfram með íbúum og fulltrúum atvinnulífsins út frá eftirfarandi lykilsviðum og orðaskýjum. 

Orðin byggja fyrst og fremst á lýsingum heimamanna sem komu fram á fundum með vinnuhópum og ungu fólki og í verkefni um tækifæri tengd þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Þau byggja jafnframt á spurningakönnun meðal ferðamanna á Snæfellsnesi sumarið 2012, viðauka með lýsingu svæðisskipulagsverkefnisins, drögum að landslagsgreiningu Snæfellsness, ýmsum eldri verkefnum og heimildum

Orðaskýin draga upp þrjú lykilsvið sem lögð verði áhersla á að draga fram í öllu kynningarefni og markaðssetningu: strandmenningu, upplifun og jarðfræði. 

Snæfellsk strandmenning: Lifandi, fjölbreytt og með djúpar rætur

Allt sem viðkemur sambýli við sjóinn og nýtingu auðlinda við strendur og í hafi, er sérkennandi fyrir samfélagið á Snæfellsnesi. 

Orðin lýsa verðmætum, sérkennum og sögu svæðisins að því er snýr að strandmenningu þess.


Snæfellsk upplifun: Kraftmikil, nærandi og í nálægð við náttúruöflin

Snæfellsnes býður upp á óvenju fjölbreytta og magnaða upplifun, sem að miklu leyti skýrist af margbreytileika landslagsins, en einnig af veðurfari, búsetumynstri og mannlífi.

Í skýinu eru orð sem heimamenn sjálfir nota til að lýsa átthögunum; tengslum sínum við þá og það sem þeir hafa að bjóða.

Snæfellsk jarðfræði: Ísland í hnotskurn

Úr landslagi Snæfellsness má lesa nær alla jarðsögu Íslands. Svæðið er því kjörinn vettvangur fyrir jarðfræðiferðamennsku og fræðaferðir, en einnig ferðamennsku sem býður upp á ævintýralega upplifun í sérstöku landslagi.


Lykilsvæði Snæfellsness

Auk þess að þróa og kynna líf og starf á Snæfellsnesi - [ferða]þjónustu, matvæli og aðrar vörur - út frá lykilsviðum og lykilorðum, verði unnið út frá karaktersvæðum. Hvert svæði fyrir sig verði markað (“brandað“) út frá sínum sérkennum og sögu.

Lykiltáknmyndir Snæfellsness

Snæfellsjökull er ótvírætt tákn Snæfellsness og beinast liggur við að nota hann sem eina helstu táknmynd Snæfellsness. 

Önnur tákn, fengin úr landslagi og náttúru, sem nýta má við markaðssetningu eru t.d. Lóndrangar, umhverfi Arnarstapahafnar, Djúpalónssteinar, Kirkjufell, Helgafell, Drápuhlíðarfjall, Súgandisey, Kerlingin í Kerlingarskarði og eyjar og sker Breiðafjarðar.

Úr sögu og menningu má t.d. nefna Bárð Snæfellsás og Guðríði Þorbjarnardóttur.

Þorskurinn er sömuleiðis sterkt tákn sjósóknar og útvegs, og getur jafnframt táknað þrautseigju vermanna sem gerðu út við erfiðar aðstæður.