Kynning vinnslutillögu að svæðisskipulagi

Efnisyfirlit:                                                                                  ATH! Smellið á myndir til að sjá þær í stærri útgáfu!
Svæðisskipulagstillaga
Kynning tillögunnar
Auglýsing tillögunnar
Afgreiðsla að aflokinni auglýsingu

Svæðisskipulagstillaga

Á þessum vef er birt vinnslutillaga að svæðisskipulagi fyrir Snæfellsnes.

Tillagan er unnin á grundvelli VI. kafla skipulagslaga þar sem segir m.a. í 21. gr.: „Svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna þeirra um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem þörf er talin á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hlutaðeigandi sveitarfélaga. [...] Svæðisskipulag skal taka til svæðis sem myndar heild í landfræðilegu, hagrænu og félagslegu tilliti. [...] Stefnumörkun svæðisskipulags skal taka til a.m.k. tólf ára tímabils.“


Kynning tillögunnar

Tillagan var aðgengileg hér á þessum vef, fyrir fjölda umsagnaraðila, frá 12. mars 2014. Þeirra á meðal voru sveitarfélögin fimm og aðliggjandi sveitarfélög. Unnið var úr athugasemdum sem bárust og tillagan þannig breytt kynnt almenningi í samræmi við 2. mgr. 23 gr. skipulagslaga, m.a. með því að gera slóð þessa vefs opinbera, frá 9. apríl 2014. Vakin var athygli á tillögunni og vefnum með umfjöllun í fjölmiðlum og á vefsíðum sveitarfélaga. Einnig með bæklingi sem dreift var til allra heimila og fyrirtækja á Snæfellsnesi dagana 1.-6. maí 2014. Kynningarfundir (opið hús) voru haldnir á 3 stöðum á Snæfellsnesi 2. maí 2014, þar sem kostur gafst á að kynna sér tillöguna, gera fyrirspurnir og leggja fram athugasemdir eða ábendingar. Fundirnir voru auglýstir í staðar- og héraðsblöðum, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 30. apríl 2014, auk þess á vefsíðum aðila.

Auglýsing tillögunnar

Þegar kynningu lauk og umsagnir höfðu borist var gengið frá svæðisskipulagstillögunni á fundi svæðisskipulagsnefndar þann 8. maí 2014. Tillagan var þá lögð fyrir sveitarstjórnir til samþykktar, sbr. bréf 9. maí 2014 til þeirra. Sveitarstjórnir hafa nú afgreitt tillöguna og er hún nú send til Skipulagsstofnunar til athugunar. Skipulagsstofnun hefur 4 vikur til að gera athugasemdir. Þegar unnið hefur verið úr mögulegum athugasemdum Skipulagsstofnunar mun svæðisskipulagsnefnd auglýsa tillöguna. Íbúum og öðrum hagsmunaaðilum gefst þá tækifæri til að gera athugasemdir innan sex vikna frá birtingu auglýsingarinnar. Tillagan mun liggja frammi hjá sveitarfélögunum og hjá Skipulagsstofnun, auk þess að vera aðgengileg hér á netinu.

Afgreiðsla að aflokinni auglýsingu

Eftir að auglýsingtíma er lokið tekur svæðisskipulagsnefnd tillöguna til umfjöllunar að nýju og tekur þá afstöðu til athugasemda sem kunna að hafa borist og hvort skuli gera breytingar á tillögunni vegna þeirra, sbr. 25. gr. skipulagslaga. Innan tólf vikna sendir svæðisskipualgsnefnd sveitarstjórnunum fimm tillögu sína að svæðisskipulagi ásamt athugasemdum og umsögn sinni um þær. Sveitarstjórnir hafa þá sex vikur til að senda svæðisskipulagsnefndinni afgreiðslur sínar. Þegar svæðisskipulagið hefur verið samþykkt, að öllu leyti eða að hluta, sendir svæðisskipulagsnefnd tillögu sína að svæðisskipulagi til Skipulagsstofnunar ásamt athugasemdum og umsögnum svæðisskipulagsnefndar um þær. Jafnframt auglýsir svæðisskipulagsnefnd niðurstöðu sína og sendir þeim aðilum sem gerðu athugasemdir umsögn sína um þær.

Innan fjögurra vikna frá því að tillaga að svæðisskipulagi barst Skipulagsstofnun, skal stofnunin staðfesta svæðisskipulagstillöguna og auglýsa hana í B-deild Stjórnartíðinda. Svæðisskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Telji Skipulagsstofnun að synja beri svæðisskipulagi staðfestingar skal hún senda tillögu um það til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því að henni barst tillaga að svæðisskipulagi. Skal tillagan rökstudd með greinargerð þar sem fram skal koma hvort form- eða efnisgallar séu á afgreiðslu svæðisskipulagsnefndar eða á gerð skipulagsins. Áður en ráðherra tekur ákvörðun skal hann leita umsagnar svæðisskipulagsnefndar. Ráðherra synjar eða staðfestir síðan svæðisskipulag.  Staðfest svæðisskipulag skal auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Slíkt svæðisskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórnum, hlotið staðfestingu ráðherra og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Þau sveitarfélög sem aðild eiga að svæðisskipulagi eru bundin af stefnu þess við gerð aðalskipulags.


Subpages (1): Um þennan vef